Kanada, Whistler: Gleymdu þessu

Á tölvunni minni beið mín tölvupóstur þegar ég vaknaði. Reyndar biðu mín nákvæmlega 34 tölvupóstar sem höfðu læðst inn í innbakkann á meðan ég svaf. Þegar klukkan var hálfsex í morgun gat ég ekki sofið lengur. Þrátt fyrir að hafa bæði velt mér á hina hliðina og staðið upp og pissað tókst mér ekki að sofna aftur. Ég náði því í tölvuna mína til að svara tölvupóstum næturinnar á meðan aðrir sváfu. Hægt og rólega vann ég mig upp eftir ósvöruðum tölvupóstum frá hinum elsta til hins nýjasta. Þegar ég hafði náð í gegnum rúmlega helminginn af erindum dagsins opnaði ég bréf frá kvenmanni sem ég hélt fyrst að væri útlensk en reyndist vera íslensk (það uppgötvaði ég þegar ég las sendinguna frá henni) en bar íslenskt nafn sem var svona líka alþjóðlegt. Hún sagðist eiga brýnt erindi við mig og hvort ég gæti hitt hana strax í hádeginu á ónefndu kaffihúsi í Reykjavík. Hún vissi því greinilega ekki að ég var á ferðalagi langt í burtu og þar að auki byggi ég ekki lengur á Íslandi. Erindið var brýnt en hún upplýsti ekki hvað það var sem hún vildi mér.

Ég svaraði kurteislega að ég gæti því miður ekki hitt hana í hádeginu þar sem ég væri í Kanada og væri ekki væntanlegur í bráð til Íslands og spurði hvort ég gæti aðstoðað hana með hjálp tölvutækninnar.

Ég var rétt búinn að senda skeytið til Íslands þegar svarið frá konunni með alþjóðlega nafnið kom. Og það var stutt og laggott. “Gleymdu þessu.” Já.

Á morgun keyrum við áfram, yfirgefum Whistler og stefnum í austurátt.

IMG_7508
Með unglingnum á kaffihúsi.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.