Kanada, Savona. Til New York

Savona-bær er furðulegur staður. Hér djúpt inni í Kanada, langt frá annarri byggð, liggur þessi litli 650 manna bær. Ég veit ekki afhverju fólk hefur sest hér að. Kannski er ástæðuna að finna í, að í útjaðri bæjarins liggur glæsilegur golfvöllur sem á víst að vera sá besti í vestanverðu Kanada. Í Savona gistum við eina nótt á leið okkar í átt til flugvallarins í Edmonton, þaðan sem við fljúgum til Íslands. Vegalengdirnar milli staða  í Kanada eru miklar og því er nauðsynlegt að gera hlé á keyrslunni og gista í þessum litla golf-bæ.

Davíð og Núma finnst lítið til sveitarinnar í Kanada koma. Þótt hér sé ægifagurt; há fjöll, skógivaxnar hlíðar, spegilslétt stöðuvötn, fossar og straumharðar ár, vilja þeir heldur vera í borgum. Númi kom með þá tillögu yfir morgunkaffinu að í stað þess að fljúga frá Edmonton þann 27. maí gætum við allt eins keyrt til New York og heimsótt Sölva og Ingibjörgu sem eru stödd í borginni fram á næsta þriðjudag, og fljúga þaðan til Íslands. Samkvæmt Google tæki það okkur 44 klukkustundir að keyra þá 4529 km sem eru til New York.

Nú er ég langt kominn með sjötta bindi MIN KAMP eftir Karl Ove Knausgård. Þetta síðasta bindi er mikill doðrantur, 1000 síður. Mér reiknast til að ég hafi lesið meira en 3000 síður af Knausgård síðustu vikur. Ég skemmti mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.