Kanada, Lake Louise. Persónur og leikendur

Ég  hef hikað við að skrifa um sum atvik í lífi mínu (hér í dagbókinni) af ótta við að draga inn saklaust fólk, sem óhjákvæmilega er hluti af frásögninni, en ætti kannski ekki lenda inn í þessari dagbók sem er opin öllum.

Þetta hefur leitað á hugann eftir að ég las um viðbrögðin í Noregi við bókum Knausgårds, Min kamp 1-6. Strax í fyrsta bindinu lýsir Karl Ove Knausgård dauða föðurs síns, aðdraganda hans og eftirmála. Þetta er sorgarsaga, og margir úr föðurfjölskyldu Knausgårds vefjast inn í þá sögu og sleppa misskaddaðir frá frásögninni. Bróðir pabba Knausgård reyndi mjög að stoppa útgáfu bóka Knausgårds þar sem honum fannst rangt farið með staðreyndir og sú mynd sem dregin er upp af honum og mömmu hans (og öðrum fjölskyldumeðlimum)  alröng og ærumeiðandi. Karl Ove Knausgård hefur hins vegar aðra sýn á atburði og telur að hann sé neyddur til að skrifa um þá sem hann umgengst til að geta leyst það verkefni sem hann hefur tekið sér á hendur. Bókmenntaprójektið Min kamp snýst um að lýsa í minnstu smáatriðum lífi höfundarins frá því hann fyrst man eftir sér og fram til þess dags sem síðasti punktur bindis 6 er settur. Þessi vinnubrögð Karl Ove hafa auðvitað vakið hörð viðbrögð fleiri en föðurfjölskyldu hans. Fyrrum eiginkona hans er bæði sár og reið og sömu sögu er að segja um marga af vinum Knausgårds (sem nú eru fyrrum vinir hans). Þetta er ekki auðveld leið til að skrifa bækur. Ég hef sem sagt ákveðið, í bili, að láta fólk meira eða minna óáreitt hér á Kakusnum nema ég hafi eitthvað gott að segja.

Í dag höfum við keyrt eftir þjóðvegi 1 hér í Kanada og náð til Lake Louise. Á ökuferðinni hef ég hvað eftir annað furðað mig á hvað mörg tré eru í Kanada. Ég hef aldrei séð annan eins skóg. Hér eru tré hvert sem er litið. Akvegurinn liggur um þétt skóglendi og á báðar hendur eru háar skógivaxnar hlíðar – eins og svartur skurður í gegnum grænt flosteppi. Þetta landslag hefur fylgt okkur síðustu 1000 km.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.