Kanada, Banff. Björn dagsins

Hó. Við mjökumst áfram til norð-austurs og nú komin til Banff, lítils bæjar innan Banff-þjóðgarðsins. Næstsíðasti áfangastaður áður en við fljúgum til Íslands. Ég er lítið farinn að skipuleggja Íslandsdvölina og er þegar farinn að hafa áhyggjur af skipulagi daganna á Íslandi.

Í dag hefur regn dunið á okkur. Allt er vott. Fjöllin eru hulin hvítum, þéttum skýjum sem ná næstum niður til trjátoppanna. “Það eru tré á ferli í regninu, hraða sér hjá í byljandi gráma.”

Við keyrðum frá Lake Louise í morgun, tókum því rólega, keyrðum löturhægt í gegnum bjarnarskóg og mættum einum svörtum og síðloðnum birni. Í makindum tuggði hann gras í vegarkantinum og lét hvorki regnið né okkur trufla sig. Birnir eru fallegar skepnur, augun eru pínulítil og dimmsvört í stóru og loðnu höfðinu. Trínið er glansandi svart og eyrun loðin og lítil. En þeir eru ekki bara fallegir, þeir geta líka verið agressívir og hættulegir.

Í gær tók Númi próf í dönsku. Hann hafði verið örlítið taugaspenntur yfir því undanfarna daga. Prófið er í gegnum netið og hann leysir verkefni á tölvunni sem hann sendir svo til Danmerkur. Allt gekk vel og hann fékk næsthæstu einkunn. Númi hefur verið mjög góður að taka sjálfur ábyrgð á náminu á ferðalaginu. Hann hefur fylgst með hvaða verkefni eru lögð fyrir bekkjarfélagana og leysir þau sjálfur án þess að fá sérlega mikla leiðsögn. Hann hefur merkilega góða almenna þekkingu, fylgist vel með í heimspólitík og pólitíkinni í Danmörku. Hann les Politiken nærri dag hvern. Hann er ólíkur jafnöldrum sínum hvað þetta varðar. Ég efast um að ég hefði leyst ár utan skóla á jafnglæsilegan hátt og hann hefur gert þegar ég var 14 ára. Þetta ferðalag hefur ekki valdið því að hann dregst aftur úr í skóla, en svo kemur í ljós þegar við komum heim hvaða félagslegar afleiðingar ferðalagið hefur fyrir hann. Nú hefur hann ekki verið í svo miklu sambandi við vini sína og við foreldrar hans höfum verið aðalfélagar hans. Skólinn er ekki jafnmikilvægur hjá Davíð, námið er létt í 10 ára bekk og ekki til að hafa áhyggjur af. Hann hefur að minnsta kosti engar áhyggjur af skóla.

Ég hef tekið 70 armbeygjur í dag. Ekkert afrek en undanfarnar vikur hef ég tekið að minnsta kosti 50 armbeygjur á hverju degi. Ég undirbý að koma til Danmerkur og byrja að keppa með fótboltaliðinu mínu, því þarf ég að komast í form. Ég þarf að bejast fyrir að komast aftur í liðið. Ég hef ekki getað hlaupið hérna í Kanada, maður hleypur ekki mikið einn hérna úti á landi þar sem birnir lúra í skóginum. Við höfum þó gengið mikið síðustu mánuði svo ég er ekki í kökuformi. En um leið og ég lendi í Danmörku byrja ég að hlaupa aftur. Það er leikur þann 11. júni og ég vonast til að hafa náð að hlaupa að minnstu kosti 7-8 sinnum áður en sá dagur rennur upp.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.