Kanada, Jasper. Púðurdós og silfruð hárkolla

Í dag líkist borgin
Hvítri rós
Fiðlu
Og kufungi
Það er nótt og dúfur kurra
Við skulum opna alla glugga að strætinu
Og þá mun borgin líkjast
Púðurdós
Hvítum hanzka
Og slifraðri hárkollu

Þetta ljóð, Tunglskin, barst mér með tölvupósti árið 2008. Ég var þá nýfluttur til Danmerkur. Með ljóðinu kom þessi skýring: “Höfundurinn Nezval er eitt að höfuðskáldum Tékka, Hannes Sigfússon þýddi nokkur ljóð eftir hann á miðri tuttugustu öldinni, meðal annars hið mikla ljóð Fimm mínútna leið frá bænum, sem væri gaman að slá einhverntíma inn og hafa ljóð dagsins, en spurning hvort skriðþungi þess myndi ekki gera þig svo ringlaðan að þú legðist í rúmið…”

Á hverjum degi, í 365 daga, á árunum 2007 til 2008 fékk ég slíkar sendingar frá Jóni Kalman. Allskonar ljóð eftir innlenda og útlenda höfunda sem Kalman hafði valið fyrir mig. Það er nánast ómögulegt að lýsa hvað þessar sendingar Kalmans glöddu mig mikið hálfhnugginn í erlendu regni, eins og ég var í þann tíð. Mér fannst mikið til þessa vinarbragðs Jóns Kalmans koma. Ég gleymi því aldrei og fæ sennilega aldrei endugoldið. Og enn nýt ég góðs af þessari gömlu sendingu Kalmans því á hverju kvöldi les ég nokkur af þeim ljóðum sem valin voru fyrir mig fyrir bráðum tíu árum.

Til að auka gleði mína fékk ég um daginn frá Palla Vals nokkur úrvalsljóð eftir ástsælan, íslenskan höfund með orðunum: “just for you my friend…”

Það má eiginlega segja að nú sé þetta 9 mánaða ferðalag okkar á enda. Í kvöld var pakkað niður í töskur og við erum ferðbúin. Snemma í fyrramálið keyrum við af stað til Edmonton þaðan sem við fljúgum til Íslands annað kvöld. Ísland er einhvern vegin ekki hluti af  heimsreisunni.

Ég ætla ekki að gera þessa heimsreisu upp núna, ég leyfi ferðarykinu fyrst að leggjast. Þegar við fjögur sátum í kvöld á kaffistétt niður í bæ, borðuðum samloku og spjölluðum um atburði  dagsins og þá staðreynd að ferðalag okkar er á enda, ákváðum  við að gefa ferðalaginu einkunn:
Sus: 10
Númi: 10
Davíð: 9+
Snæi: 9 (Það sem hefur vakið hjá mér töluvert hugarangur, alla ferðina, er að ég hef misst svolítið af Öglu, Styrmi, Mónu og Millu, barnabörnunum og það dregur einkunina niður.)

IMG_7668 (1)

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.