Kanada, Edmonton. Tár á vanga

Við lögðum snemma af stað frá Jasper til Edmonton. Ég var búinn að pakka farangri í bílinn um níuleytið og svo var keyrt af stað. Yfir okkur héngu regnský og í fjarska mátti sjá eldingarákir á himni.

Vegurinn til Egmonton er beinn og breiður og varla bíl að sjá á þessum tíma dags, hvorki framundan né fyrir aftan okkur. Á báðar hendur er þéttur barrskógur sem teygir sig langt upp í fjallshlíðar. Músikin af playlistanum dunar í fimmhundraðasta skipti. Píanóleikarinn Oscar Peterson leikur ásamt tríói sínu Night and Day, svo tekur stjarnan Beyoncé við og leikur lag af Lemonade plötu sinni, Teitur, Onbc, Julee Cruise, Paolo Conte, Tom Waits, Ellý Vilhjálms… Allt þetta höfum við heyrt svo oft áður. Öll fjögur sitjum við þögul, hver  í sínum þönkum, á meðan bíllinn líður eftir malbiksbrautinni.  Sus fellir nokkur tár. Níu mánaða ferðalag er á enda og bráðum tekur hversdagurinn við.

Öll hlökkum við til þess að koma heim. Okkar bíður góður hversdagur, en við kveðjum með trega þennan kafla í lífi okkar. Við eigum eftir að sakna frelsisins sem við höfum notið á ferðalaginu. Það eru ekki mörg börn í heiminum sem njóta þeirra forréttinda að fá að ferðast í níu mánuði, eins og Núm og Daf, og fá óskipta athygli foreldra sinna á meðan.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.