Ísland, Reykjavík. Já, til Reykjavíkur

Eftir tæplega ársfjarveru er ég aftur kominn til Reykjavíkur. Við lentum snemma í gærmorgun eftir rúmlega sex tíma flug frá Edmonton í Kanada. Á Keflavíkurflugvelli blés kröftugur vindur svo regnið kom lárétt á móti manni. Þessu vorum við viðbúin. En leynigestir okkar sem við tókum á móti gær voru kannski ekki jafnvel undirbúnir fyrir þetta veðurfar. Adam og Tóbías, hinir miklu vinir Núma, komu með fluginu frá Danmörku. Heimsókn þeirra hefur átt nokkurn aðdraganda, en allt hefur verið skipulagt án þess að Númi hefði hugmynd um áætlanir þeirra félaga. Það urðu því fagnaðarfundir þegar Adam og Tóbías birtust skyndilega fyrir framan Núma. Sem átti ekki annað komment en: „Hvað eruð þið að gera hér?“

Eftir að við höfðum, fengið bílaleigubíl, keyrt til Reykjavíkur og tékkað okkur inn í íbúð á Skúlagötu ákváðum við Davíð að kíkja aðeins í bæinn og sjá hvort við rækjumst ekki á Söndru með Styrmi litla sem ég hafði enn ekki séð. Þar sem við búum á Skúlagötu er stutt upp á Laugaveginn og við vorum vart komnir upp á verslunargötuna þegar gamalkunnug andlit fóru að birast og kasta kveðju á okkur Davíð. Niður í Bankastræti hittum við, eins og svo oft áður á mínum Íslandsferðum, sjónvarpsmanninn Egil Helgason.
„Nei, sæll, Snæi minn, ertu bara á landinu?“ sagði hann glaðhlakkalega þegar við mættumst.
„Já, og það er merkilegt að það skuli vera þú sem ég hitti oftast þegar ég kem til Íslands. Ég rekst á þig mörgum sinnum á dag í hverri Íslandsferð!“
„Hehe, ég er líka alltaf á vafri um miðbæinn, ég held að borgaryfirvöld ættu að heiðra mig fyrir að vera eini Íslendingurinn á sífelldu vappi meðal allra þessara útlendinga, ég ætti að fá að ganga með lykilinn að borgarhliðinu um hálsinn, gulllykilinn.“
Við Davíð vorum sammála því að það mundi klæða Egil að hafa lykilinn að Reykjavík hangandi um hálsinn. Við kvöddum þennan mikla fjölmiðlamann með rauða hármakkann. Og héldum áfram göngu okkar.

Stymir og Sandra voru úti að ganga, eins og mig grunaði, og við Davíð gengum með þeim á kaffihús. Styrm, eins og hann er kallaður af okkur í Danmörku, var hinn kátasti að sjá afa sinn. Hann er mikill gleðibolti, síbrosandi  og skýr.

Á leið okkar til baka hittum við svo fyrir tilviljun minn gamla vin og höfðingja, Helga Grímsson. Ég var mjög glaður að hitta hann og hann virtist glaður að hitta okkur Davíð. Það eru mörg ár síðan leiðir okkar hafa legið saman. Helgi sagði mér undan og ofan af högum sínum en neitaði að ræða við mig á götuhorni, og þar að auki í rigningu, um allt það sem á daga hans hefði drifið. Ég yrði að koma í kaffi  til að fá lengri útgáfuna. Ég hef því ákveðið, þótt það sé ekki beint í eðli mínu, að bjóða sjálfum mér í kaffi til Helga næst þegar ég er á landinu.

Síðar um daginn var búið að skipuleggja ættarmót í íbúðinni okkar á Skúlagötunni, öll mín stóru börn og makar þeirra og börn votu væntanleg í pizzu kl. 17. En áður en þau komu boðaði Jón Karl mig á sinn fundu uppi á skrifstofu sína í Árnastofnum. Ég hafði klukkutíma aflögu og keyrði því á hans fund. Ég  uppgötvaði þegar ég kom inn á háskólsvæðið að ég var eiginlega ekki viss hvaða bygging hýsti Árnastofnun. Allt er svo breytt á háskólasvæðinu. Mér tókst þó að ramba á skrifstofu Jóns Karls. Við gengum svo þaðan niður í Stúdentakjallarann þar sem við gátum sest í ró og næði. Það er alltaf inspírerandi að hitta Jón Karl, minn gamla samstarfsmann og félaga til margra ára.

Dagurinn endaði svo á hinu mikla ættarmóti sem stóð fram á kvöld. Mikil gleði að hitta mitt fólk aftur.

IMG_7688 2
Við Gullfoss

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.