Ísland, Reykjavík. Tónninn

Þótt undirtitill þessarar síðu sé „dagbók“ hefur mér einhvern veginn aldrei tekist að finna dagbókartóninn. Mér fellur ekki að skrifa um atburði dagana, eða halda skýrslu um atvik. Ég get léttilega skrifað um einn tvo atburði en mér er ómögulegt að skrifa skýrslu um framvindu dags. Til þess er ég of óþolinmóður og of óagaður.

Ég get þó sagt að ég borðaði hádegismat á Kexi með mínum gömlu félögum, Kalman, Kaldal, Magga Guðmunds, Magga Ásgeirs, Þorsteini J. og Eiríki Guðmundssyni (mínum gamla sambýlingi). Það var frábært að hitta þá aftur eftir mína 9 mánaða fjarveru.  Það vantaði auðvitað Effa en sem betur fer kemur hann í heimsókn til mín til Danmerkur í sumar. Þetta eru allt sögumenn og gaman að heyra sömu gömlu sögurnar aftur og aftur. Gaman að rifja upp rútukeyrslu Magga, hlaup Kaldals að nóttu til um Parísarborg, fram og til baka, upp og niður sömu götuna á meðan við hinir sátum í makindum á kaffistétt og fylgdumst með kappanum hlaupa  hvað eftir annað fram hjá okkur, með þaninn brjóstkassa. Setningu aldarinnar þegar Eiríki tókst í fyrsta skipti að brjótast upp kantinn fram hjá varnarmanni í innanhússfótboltanum: „Giggs“.

Ég get líka sagt að ég hitti Palla Vals og Nönnu í kvöld og borðaði kvöldmat hjá þeim (rétt að geta þess að Onkel Palles kartofler voru á boðstólum, no worries). Ómetanlegt að eiga slíka vini. Þar voru ennþá fleiri gamlar sögur rifjaðar upp og nýjum bætt við og framhald á morgun þegar við ætlum að ganga um bernskuslóðir.

Ég get einig nefnt að ég hitti Guðmund Steingrímsson þingmann fyrir framan Bræðraborgarstíginn. Hann er hinn nýji leigjandi gamla Bjarts-húsnæðisins.

En þar sem ég get enn ekki hitt dagbókartóninn læt ég mér nægja að segja að þegar ég kem til Danmerkur hef ég betri tíma til að einbeita mér að nýjum færslum.

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.