Danmörk, Espergærde. Bláa höndin mín

Ég er kominn til Danmerkur. Já, heim. Ég á satt að segja erfitt með að venja mig við að „heima“ er í Danmörku en ekki á Íslandi. En hér er heima, hér á Søbækvej í Espegærde. Og það var einmitt hér heima sem ég hef varið öllum deginum í dag. Ég hef varla farið út úr húsi þótt sólin hafi skinið og hitastigið hafi náð 24,5 gráðum. Nei, í dag hef ég gert hreint heima hjá mér, svo enginn útileikur í dag. Ég hafði nefnilega leigt húsið í þá 9 mánuði á meðan ég ferðaðist um heiminn. Leigan var eins lág og hægt var, enda leigði ég húsið til eins af fótboltavinum mínum. Hugmyndin með leigunni var að betra væri að hafa einhvern í húsinu en að það stæði tómt og því ákváðum við að fá þennan miðaldra knattspyrnumann til að dvelja í húsinu í fjarveru okkar. En ástand hússins við heimkomuna var kannski ekki eins og við höfðum búist við. Hér var vægast sagt skítugt, gólf, borð, veggir… og hér var allskonar dót sem við áttum ekkert í og því var blandað saman við okkar dót. Sængurnar okkar voru horfnar en gamlar tuskusængur biðu okkar, sængurver voru ekki að finna en í stað okkar mjúku og góðu sængurfata fundum við gegnþvegin og upplituð skelfi-sængurföt. Aðeins fáeinir af hnífunum okkar voru í hnifaparaskúffunni, fáeinar skeiðar og tveir gafflar. Hin hnífpörin sem lágu í skúffunni voru einhver draslhnífapör, lauflétt eins og áldósir og kengbogin. Í dag hef ég sem sagt legið á fjórum fótum og skrúbbað og ryksugað og þurrkað af og lagað og gert við og …

Heimkoman var því ekki alveg eins létt og ég hafði vonast eftir. Aftur á móti voru móttökur nágranna okkar og vina með ólíkindum. Anne Dorte, kona duglega mannsins, eins og Palli kallar hana, kom færandi hendi með nýbakaðar bollur, nýbakað rúgbrauð, jógúrt og musli fyrir morgunmatinn, skinku og kæfu.  Helle, vinkona okkar, kom skömmu síðar með nýbakaða rabarbaratertu og rjóma. Lars og Pia, buðu okkur svo í grillkvöldmat, grillaðar svínlundir, kartöflur, salat, bjór og hvítvín. Og þar að auki hafði samstarfskona okkar, Trine, sent ilmandi blóm. Þetta voru sannarlega móttökur sem hittu í hjartastað.

Síðust dagar heimsferðarinnar, í Reykjavík, voru góðir dagar. Það voru auðvitað margir sem ég hefði viljað hitta en tíminn var bara ekki nægur. Það var auðvitað betra en orð fá lýst að hitta börnin mín og litlu börnin þeirra. Allir glaðir og sælir. Okkur Palla Vals tókst líka ætlunarverk okkar að ganga um á bernskuslóðum í Álftamýrinni. Við tókum daginn meira að segja snemma og vorum komnir fyrir framan Álftamýri 41, mitt æskuheimili um hálftíu. Í rauninni var húsið í sorglegu ásigkomulagi. Múrverk var víða sprungið og stórar skellur voru sjáanlegar þar sem pússningin var hreinlega fallin af og gluggakarmar voru á mörgum stöðum ómálaðir og fúnir. Það var eins og enginn ætti heima í húsinu. Sum staðar var meira að segja pappi fyrir gluggum. Hörmuleg sjón sem hvorki séra Arngrímur né  mamma hefðu verið ánægð með. Við félagarnir gengum saman milli raðhúsanna og rifjuðum upp persónur og atburði úr æsku okkar, okkur sjálfum til mikillar skemmtunar. Margir atburðir hafa greipst sig í minningu okkar beggja, en stundum tókst öðrum okkar að koma á óvart með nýtt gullkorn úr æskubankanum. Palli var hálfvantrúaður þegar ég til dæmis sagði honum frá furðulegum innbrotaferli mínum. Þar sem ég læddist inn á heimili fólks, faldi mig inn í skápum til að fylgjast með heimilislífi ókunnugs fólks.

Uppi í gamla barnaskólanum, Álftamýrarskóla (sem heitir víst nú Háaleitisskóli) rákumst við á gamalkunnugt andlit, sjálfan Lalla laf. Hann var á vappi við íþróttahúsið og veifaði til okkar og vildi endilega fá okkur inn til að kíkja á salinn. Lalli er sérkennilegur gaur, og ég var ekki alveg viss hvert hlutverk hans var í íþróttahúsinu en hann talaði alltaf um „við“ og „okkur“ eins og hann væri hluti af einhverju liði sem passaði upp á þetta gamla íþróttahús. Hann talaði af gífulegri vandlætinu um að nú „ætluðu þeir“ sennilega að rífa íþróttahúsið og setja bílastæði fyrir nýja og stærri verslunarmiðstöð Kringlunnar. Hann var viss um að til háværra mótmæla kæmi ef menn settu þessar áætlanir í framkvæmd. Þessu yrði ekki tekið þegjandi! Til áhersluauka starði hann á okkur með sínum vatnskenndum augum svo við skildum þungan í orðum hans.

Við félagarnir kvöddum Lalla laf og héldum af stað í átt til gamla bakarísins í Starmýri þar sem við áttum stefnumót við Hallgrím Helgason, rithöfundinn. Skáldið hefur komið sér upp vinnustofu þar sem á okkar bernskudögum voru bakaðir snúðar, normalbrauð og hinar frægu tertusneiðar. Hallgrímur tók höfðinglega á móti okkur. Sýndi okkur sína glæsilegu vinnustofu þar sem bæði var hátt til lofts og vítt til veggja. Þar getur hann bæði málað og skrifað. Þarna sat hann á djúpu kafi í nýrri þýðingu á Óþelló. Palli hafði einmitt minnst á það við mig hvað Hallgrímur væri agaður; hann vaknaði snemma og sæti einbeittur við skrif og lestur langt fram eftir degi. Það var gaman að hitta rithöfundinn sem var í góðu stuði, sagði frá vinnu sinni, veru sinni á Indlandi, ásamt vel völdum gamansögum úr bransanum. Eitt verð ég þó að viðurkenna að ég var eilítið hissa á hvað Hallgrímur hefur miklar áhyggjur af framgangi Davíðs Oddssonar. Áhyggjurnar voru svo greinilegar og virtust hvíla svo þungt á skáldinu að ég fór að velta fyrir mér hver saga þeirra tveggja er. Hvernig stendur á því að Davíð leikur svo stórt hlutverk í heilastarfssemi skáldsins. Mig rámar eitthvað í að hugtakið „bláa höndin“ sé samið af Hallgrími um alltumlykjanid valdahönd Davíðs. Hvernig brást hinn mikli valdsmaður, Davíð, við þessari nafnbót? Ég bý auðvitað langt frá iðu íslenskra stjórnmála svo ég er ekki réttur maður til að dæma, en í mínum huga tilheyrir Davíð fortíð sem ég nenni ekki að velta mér upp úr. Davíð er ekki maður framtíðarinnar svo kannski er ástæðulaust að eyða miklu púðri í þennan mikla vin hrafnanna.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.