Danmörk, Espergærde. Að komast í gang

Dagarnir eftir heimkomu hafa liðið hratt enda miklar annir. Ég hef ekki einu sinni haft tíma eða orku til að skrifa dagbókarfærslur hér. Ég hef byrjað daginn á að hlaupa 5 km. Ég hef hlaupið síðustu 4 daga og tekist að bæra tímann dag frá degi. Ég á að spila fótboltaleik á miðvikudaginn á móti Skovsborg svo ég verð að flýta mér að koma mér í form. Að loknu hlaupi hef ég hafist handa við að koma húsi og garði í eðlilegt form. Ég hef ekki sest niður allan daginn.

Matarboð x 3
Eftir vinnudaginn hafa vinir héðan frá Espergærde komið í mat. Fyrsta kvöldið kom Mads (rekur eigið fyrirtæki sem safnar gögnum um fasteignamarkaðinn í Danmörku og spilar fótbolta með mér) og kona hans Anne Line, apótekari, og hálfgerð atvinnumóðir. Ég hef sjaldan hitt konu sem tekur barnauppeldi og hlutverk móður jafn alvarlega og hún gerir.) Þau eiga tvö börn, Viktoríu (18) menntaskólanema og Adam (15) vin Núma. Þau komu með lax sem við grilluðum. Á laugardagskvöldið komu svo Ole arkitekt og Tina bankamær (foreldrar Tobiasar sem er vinur Núma). Þau komu líka með lax og sátu hér fram eftir nóttu. Í gærkvöldi komu svo bæði, hjónin Helle (markaðsstjóri Bang og Olofsen) og Jesper fótboltavinur minn (vinnur með vandræðafólk) og Thomas (duglegi maðurinn eins og Palli  kallar hann, en hann býr í húsinu á bak við okkur. Hann er tölvufræðingur með eigið fyrirtæki sem malar gull) og kona hans Anne Dorte (lögfræðingur). Þrjú matarboðskvöld í röð hefur tekið  af mér sinn orkutoll.

Vinnan
Ég átti nefnilega erfitt með að koma mér á fætur í morgun og tilhugsunin um hlaup var einstaklega fráhrindandi. Ég tók mig samt saman í andlitinu og hljóp af stað þegar klukkan var rétt rúmlega átta. Hlaupið gekk vel og ég bætti enn tíma minn. Loftið var svalara en síðustu daga. Himinninn var heiður og fáir á ferli á Strandvejen þar sem ég hljóp. Eftir skokkið dreif ég mig upp á kontór. Í fyrsta skipti í 9 mánuði. Tölvan mín  sem ekki hafði verið ræst allan þann tíma sem ég hef verið í burtu þurfti að nota drjúgan tíma til að opdatera sig. Hver forritið á fætur öðru tilkynnti að nýtt opdate yrði hlaðið niður. Ég var því ekki lengi á kontórnum, var kominn heim um eittleytið og hélt áfram að vinna í garðinum.

Við Númi fórum svo upp í hjólabúð til að kíkja á nýtt hjól handa Núma. Númi hafði fengið hjól í afmælisgjöf frá okkur og í dag var komið að því að leysa gjöfina út. En nú er komið að leik Íslands og Lichtenstein í sjónvarpinu (RUV) svo ég læt staðar numið nú.

 

IMG_7731
Ole arkitekt og Tine bankamær

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.