Danmörk, Espergærde: Staða dagsins

Ég finn að hraðinn í lífinu hefur verið skrúfaður upp, ég þeytist um og næ varla klára neitt. Í fyrradag var fyrsti alvöru dagur á skrifstofu. Það er eins og ég hafi aldrei verið í burtu. Allt er við það sama hér á skrifstofufrontinum. Sama lykt, lyklaborðið við tölvuna hefur sömu hljóð og snertingin er kunnuleg. Lestin brunar framhjá glugganum og skrifstofukaffið hefur sama góða bragðið og fyrir níu mánuðum. Að vísu hljómar hér ný músik. Nú syngur hin argentínska Buika sína tangósöngva (minningar frá Buenos Aires).

Satt að segja var það léttir að setjast hér við tölvuna heilan dag, án truflana og komast í gang með að undirbúa  haustbókavertíðina. Ég gat setið linnulaust í 8 tíma og fengið yfirsýn yfir stöðu þeirra bóka sem við gefum út og skipulagt næstu skref. Slíkt hefur verið ómögulegt á ferðinni. Tveir tímar hér og þar, og alltaf á leið eitthvað, eða með fólk yfir mér sem beið eftir að komast af stað er ekki það sama og einbeiting á skrifstofustól með alvöru tölvu með öllum gögnum sem ég þarf á að halda.

Við höfum fengið nýjan nágranna á næstu skrifstofu, Jesper. Hann er líka einn af mínum ágætu fótboltavinum. Hann er skemmtilegur og gaman að hafa hann hér bardúsa með sitt vandamálafólk.

Heimavið berjumst við enn við að koma húsinu í stand. Davíð flytur í herbergið hans Núma, Númi flytur inn á gamla gestaherbergið, Davíðs herbergi hefur verið breytt í geymslu og gamla leikherbergið er orðið að gestaherbergi. Og það er margt sem þarf að gera. Númi vill fá sjónvarp inn á herbergið sitt eins og sannur unglingur. Davíð vill fá klæðaskápinn út og inn í geymsluna. Allt þetta er í prósess.

Og í gær spilaði ég minn fyrsta fótboltaleik í 9 mánuði. Espergærde-Skodsborg: 0-0. Ég spilaði allan leikinn og spilaði þar að auki á miðjunni. Allt gekk að óskum, nema ég var ótrúlega taugaóstyrkur allan gærdaginn. Svona hef ég víst alltaf verið allt frá því ég spilaði í 5. flokki með Fram, þá sem markmaður. Ég man að ég sat oft í búningsklefanum fyrir leiki og hlustaði með öðru eyranu á þjálfara okkar, Baldur Skaftason,  flytja stemmningsræðu en hugurinn var allt annars staðar; ég óskaði þess innilega að dómarinn kæmi ekki svo leiknum yrði aflýst. Ég var svo kvíðinn fyrir að spila og var svo hræddur við að gera mistök í markinu. Enn í dag er ég ótrúlega taugaspenntur ef ég hef fótboltaleik á dagskrá, alveg frá því ég vakna og þar til ég hef spilað fyrstu 5 mínúturnar er mér illt í maganum af spenningi. Samt er ég ekki lengur markmaður. Merkilegt að maður, rúmlega fimmtugur, skuli stressa sig á gamalmennafótbolta sem í rauninni engu máli skiptir.

En ég er farinn að finna að ég hef mikið að gera og þetta tímaleysi hefur valdið því að ég hef ekki getað einbeitt mér að skrifa hér á Kaktusinn. Hér eftir byrjar hver skrifstofudagur á að lýsa stöðunni.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.