Danmörk, Espergærde. Erjurnar

Það hefur gengið mikið á síðan við komum til baka til Danmerkur. Í fyrsta lagi komum við að húsi sem var ekki í sérlega góðu ástandi. Húsið var skítugt, gólf hafa sennilega ekki verið skúruð í níu mánuði, ryk var yfir öllu, rykboltar lágu í hornum (og Sus heldur því fram að nú séu meindýr í húsinu). Í öðru lagi kom í ljós að húsmunir eru horfnir: hnífapör, eldhúsáhöld, skálar, ferðatöskur, föt, sláttuvél, verkfæri, snyrtirvörur, stólar, sængurföt, næstum öll herðatré (sem veldur því að ekki er hægt að hengja upp föt)… Í þriðja lagi hefur leigjanda okkar tekist að skemma ótrúlegustu hluti; skápa, kaffivél, uppþv0ttavél, dyr, borð, skálar, stóla, rúm…). Í fjórða lagi er garðurinn eins og frumskógur. Að koma húsi og garði samt lag hefur verið verkefni síðustu daga auk þess að keyra Hr. Ferdinand í gang. Og verkefnin eru ærin.

Sá sem leigði er Frakki sem ég þekki ágætlega frá fótboltanum hér í bænum. Við spilum í sama liði. Ég þekki hann ekki náið. En nú fær maður svolitla innsýn í líf hans sem virðist vera með ólíkindum óreiðukennt. Hann á þrjú börn með fyrrum konu sinni en þau skildu fyrir nokkrum árum. Eftir skilnaðinn bjuggu þau í mörg ár til skiptis í húsi þeirra í Espergærde, viku í senn með börnunum. Þá viku sem fransmaðurinn bjó ekki í húsinu, var hann annaðhvort á söluferðalagi í útlöndum eða fékk að sofa hjá vinum og kunningjum. Svona gekk þetta í nokkur ár. Í fyrra ákvað barnsmóðirin að flytja til Kaupmannahafnar og því var húsið selt. Verðið var ekki eins hátt og þau höfðu vonast eftir þannig að þau töpuðu nokkuð á hússölunni. Eftir að húsið var selt fékk hann að leigja hjá okkur á meðan við vorum á ferðalaginu. En Frakkinn fann nýja konu sem líka átti þrjú börn og hund. Konan og börnin fluttu því inn í húsið okkar og hún seldi húsið sitt. Húsið á Söbækvej var því fyllt með húgögnum frá konunni (og bættust við húsgögnin okkar sem fylgdu leigunni.) Skyndilega voru þau orðin átta í húsinu auk hunds og húsgögnin tvöfölduð. Þegar hann flutti út frá okkur vissi hann ekki hvað voru okkar hlutir og hvað voru hlutir nýju kærustunnar. (Hún kom víst ekki nærri flutningunum).

Nú er liðinn meira en vika síðan við komum heim og daglega lengist listinn yfir þá hluti sem eru horfnir. Og Frakkanum tekst hvorki að finna húsmuni og né tíma til að skila því sem hann finnur. Eitt kvöld kom hann með einn gaffal, tvær teskeiðar og eitt sængurver (það vantar meira en 20 hnífapör ofan í þá tuttugu eða þrjátíu aðra hluti sem vantar). Þetta hefur skapað okkur ótal vandræði. Ég skynja úr 100 km fjarlægð alla óreiðuna í kringum Frakkann. Hann kemur til dæmis keyrandi til okkar á bíl sem hangir saman á gaffalímbandi, bíl sem er svo fullur af kössum og drasli að ekki er einu sinni hægt að loka bílrúðunum. Heima hjá okkur er það Sus sem er meira pirruð en ég. Ég veit ekki hvort það sé frekar í eðli karla en kvenna að reyna að halda friðinn í svona aðstæðum. Eða hvort ég sé svona lingeðja og hún með bein í nefinu. Ég er að minnsta kosti sá á heimilinu sem reynir að halda ró og frið á kostnað þess að framfarirnar eru ekki eins hraðar og maður óskar. Sus hefur annað skap en ég. Hún eyðir mikilli orku í að finna hvað vantar og hana langar mest af öllu að klóra augun úr manninum og segja honum til syndanna, en tekst með ótrúlegum hætti að halda sig á mottunni þegar Frakkinn kemur niðurlútur með eitthvað sem hann hefur fundið af hinum langa lista yfir glataða húsmuni. Það gerir hún bara mín vegna þar sem við Frakkinn erum fótboltafélagar og ég hef ekki áhuga á að spila í sama liði og einhver sem maður á í erjum við. Ég reyni að verja hann með því að það sé ekki sérstaklega gaman að vera svona kaótískur og vera með allt á hælunum. Sumt fólk ræður ekki við að strúktúrera líf sitt og að hann sé miður sín yfir þessu. Sus finnst það ekki sérlega góð afsökun.

Þetta er sem sagt staðan í dag.

En frétt dagsins er að Maggi Guðmunds er á leið til Ítalíu í LaChiusa í dag.Pino, sem á að þrífa húsið og koma því í íbúðarhæft ástand eftir veturinn, á í vandræðum og sendi í gær eftirfarandi skilaboð á enskunni sinni. Sá sem getur þýtt þetta á íslensku fær Íslensku þýðingarverðlaunin 2016:
“Orso we have a big big storm The Girl fon now cant go there to finish to clean and olso The staff we Wash Will no Be dry for tomorrow Hope The whater Change to do on time all The other thing that is Missing. And is dangerous go there now whit this storm just thing that they colse The school for allert meteo.”

Ég fæ skýrslu frá Pino í dag. Það verður spennandi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.