Espergærde. Gort og lítillæti

Klukkan er rúmlega átta, það er morgun, það er mánudagur, og ég er sestur á kontórinn. Hér sit ég einn, enginn annar vaknaður. Fyrir utan gluggann minn rennur lestin frá Helsingör inn á brautarpallinn og gleypir nokkra farþega á leið sinni til Kaupmannahafnar. Að venju er stillt veður, nánast logn og hálfskýjaður himinn. Það er svalt og ég fór í leðurjakkann minn þegar ég hjólaði af stað í morgun.  Að sitja hér og það fyrsta sem maður gerir er að skrifa færslu inn á Kaktusinn minnir mig á stórforstjórann Ólaf Jóhann Ólafsson og líf hans í útlöndum. Ég las nefnilega viðtal við hann fyrir mörgum, mörgum árum þar sem hann lýsir lífi sínu fjarri heimalandinu og baráttu hans við að viðhalda íslenskri tungu. Það var auðvitað langtum meiri stíll yfir athöfnum forstjórans, því hann vaknaði, ef ég man rétt, fyrir klukkan sex og settist við tölvuna í nokkra klukkutíma til að skrifa skáldsögur sínar áður en hann mætti til starfa á skrifstofunni við Columbus Circle. Ég hef alltaf dáðst að Ólafi Jóhanni, hann ber sig svo vel. Hann er kumpánlegur, heimsborgaralegur, en um leið er yfir honum ára sveitapiltsins. Þessi góða blanda gerir hann viðkunnalegan.

Yfir mér hefur ekki verið mikil reisn síðustu daga. Ég spilaði nefnilega fótboltaleik á móti Humlebæk á laugardaginn (sem við töpuðum 5-2. Ég skoraði tvö mörk eitt fyrir mitt lið og eitt fyrir Humlebæk). Eftir leikinn hef ég næstum ekki getað gengið. Hvert skref hefur verið helber þjáning, svo göngulagið hefur minnt á háaldraðan mann. Í morgun, þegar fór á fætur, fann ég að ég var aðeins betri og ég gekk bara hálfhaltrandi niður tröppurnar. Ég hef verið svo aumur að ég hef íhugað að hætta að spila fótbolta. Ég á að keppa á þriðjudaginn og ef ég verð jafnþjáður eftir þann fótbolta og ég hef verið um helgina legg ég skóna á hilluna. Því bæði er ómögulegt að vera hálffarlama í tvo daga eftir fótboltaleik og svo hitt, sem ekki vegur minna; ég á orðið erfitt með að hreyfa mig almennilega á fótboltavellinum, svo mjög að það kemur niður á leik mínum. Sem sagt það er komið að því að maður kasti handklæðinu í hringinn og það er með tárin í augunum. Ég hafði vonast eftir að geta spilað fótbolta í fimmtán ár enn.

Nágrannar mínir, duglegi maðurinn, Thomas og kona hans Anne Dorte, (sem er ekki síður dugleg) skoruðu á okkur Sus í tennisleik í gær. Það var kannski ekki bestu dagur í heimi fyrir mig til að spila kappleik. En einhvern veginn tókst mér að komast í gegnum leikinn (glæsileikinn var enginn) og þrátt fyrir allt við unnum við duglegu hjónin.

Á laugardagskvöldið héldum við mikla veislu fyrir vinni okkar hér í Espergærde til að heilsa upp á alla sem við kvöddum á sama hátt fyrir meira en 9 mánuðum. Þetta var afslöppuð samkoma þar sem ég grillaði pylsur. Í ísbala lá svo bjór, vín og gosdrykkir. Gestirnir voru um það bil fjörutíu; tuttugu fullorðnir og tuttugu börn. Allt heppnaðist vel og allir voru glaðir.

Í dag kemur Effi í heimsókn og gistir í nótt. Ég hlakka til að hitta þann harðduglega mann. Hann er á ferð um Danmörku efir að hafa verið úti um víðan völl í Kína og Póllandi. Ekki veit ég hvað hann hefur verið að gera þar en um það fæ ég væntanlega að heyra í kvöld. Annar Halavinur minn Maggi Guðmunds er í ólífulundinum okkar á Ítalíu. Ég  hef séð á verðurlýsingum að þar gangi á með þrumum og eldingum. Sendi honum skeyti í morgun: “Er stöðugt regn hjá þér? Er allt í lagi í húsinu?” Bíð eftir svari.

ps. Mér hefur verið hugsað til viðhorfsbreytinganna sem Facebook hefur valdið. Ég á nokkuð erfitt með að venja mig við að fólki leyfist að monta sig. “Sjáiði hvað ég hef gert, og hvað ég er duglegur.” Skrifar fólk. Algerleg ódulbúið. Þetta hefði verið óhugsandi fyrir daga facebook, að fólk hefði blygðunarlaust gortað af eigin ágæti. Mér finnst lítill stíll yfir þessu sjálfshóli, en maður verður að horfast í augu við það að nú eru nýir tímar, og það er ekki lengur nein sérstök dyggð að vera hógvær og lítillátur.

pps. Það var hringt í mig frá dagblaðinu Politiken. Í símanum var ágætur maður sem ég kannast við og hann hafði þær fréttir að færa mér að Politiken hefði ákveðið að ættleiða íslenska fótboltalandsliðið. Danmörk er ekki með á EM og því hefur Politiken ákveðið að taka Ísland í fóstur. Á næstu vikum verður athygli dagblaðsins fyrst og fremst beint að íslenska karlalandsliðinu, bæði innan vallar og utan, en auk þess verða margar greinar í blaðinu um Ísland bæði land og þjóð. Hann var glaður að geta sagt mér frá þessu, danski blaðamaðurinn.

IMG_7741
Sus á leið út að hlaupa

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.