Espergærde. Heimsókn frá Íslandi

Einar Falur var gestur okkar við morgunkaffið í morgun. Þess vegna er ég sestur mun seinna en venjulega við kontórtölvuna. Þó er enn morgunn. Einar Falur kom í gær um kvöldmatarleytið. Það var fyndið að sjá þennan hávaxna, gráhærða og virðulega mann standa skyndilega fyrir utan eldhúsgluggann hjá okkur á Søbækvej. Frábært að fá Effa í heimsókn ogn heyra sögur af ferðum hans um Kína og Pólland. Og ekki síður að vera skemmt með nýjustu fréttum frá Íslandi.

Ég beið auðvitað í spennu eftir að heyra hvernig fjölskylda Magga Guðmunds, hins mikla menningarritstjóra, hefði það í  LaChiusa. Að verða taugaveiklaður útaf fólki sem er í húsinu okkar á Ítalíu og hafa alltof miklar áhyggjur af því að það hafi það ekki gott er auðvitað er eins heimskulegt og nokkuð getur orðið. Eins og maður beri ábyrgð á fríi annarra bara af því að maður veitir aðgang að sumarhúsi. En svona er þetta alltaf þegar ég lána LaChiusa. Ég er nánast friðlaus af áhyggjum. Ég hef svo sem ekki svo miklar áhyggjur af Palla Vals þegar hann er í húsinu okkar í Danmörku á sumrin. Þar hefur hann verið svo oft og þekkir allt svo hann er ekki lengur á mínu ábyrgðarsviði. En sem betur fer kom sms kom frá Magga í gær: „Við höfum það miklu meira en gott. Vico er Paradís … veðrið var aðeins að stríða okkur … lentum í að keyra í hitabeltisstormi frá helvíti!“ Sá á veðurappinu að veðrið yrði betra í Vico í dag. Það var léttir.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.