Espergærde. Skipulag og skammir

Ég veit ekki hvort ég er bara illa upplagður en ég nenni bara ekki að gefa út bækur í dag. Þótt ég hafi besta jobb í heimi sækir stundum á mig efi um hvort ég eigi að halda áfram eða prófa eitthvað annað. Ég hef unnið við bókaútgáfu allt mitt líf og ég veit að það gerist ýmislegt fyrir utan bókaveröldina þótt það kunni að hljóma ótrúlega.

Við komum heim í haug af óleystum verkefnum, fullt af bókum sem eru á leið í útgáfu og önnur eins hrúga af paperback útgáfum bíður, auk annarra verkefna hér á kontórnum. Stundum finn ég að það vantar í mig eldinn, ég þarf bara að koma þessum bókum út og það er ekki svo mikið fjör. Í mínum huga er markaðurinn í Danmörku mjög streit. Ég finn að ég á erfitt með að leika mér hér. Leiksvæðið er svo skipulagt allir þurfa að bíða í fallegri röð eftir að geta farið í næsta leiktæki og ef einhver tekur upp á því að gera nýjar æfingar, róla á hvolfi, verða margir reiðir og skammast. Ég finn fyrir vanmætti gegn þessum markaði. Mig vantar verkfæri, mér finnst ég heftur; og ég get ekki innleitt gleði, leik og fjör, þótt það sé bara fyrir sjálfan mig. Ég beit bara ekki hvernig ég á að fara að því að setja eitthvað nýtt og skemmtilegt í gang án þess að gera einhverja algera vitleysu sem ég verð bara skammaður fyrir. Eða er ég að verða eins og Knausgaard sem er dögum saman hálflamaður af ótta við að fá skammir.

Og svo er það líka hitt að ég þarf líka að finna bækur sem ég get gengið í gegnum eld og brennistein fyrir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.