Espergærde. Lágmælti tónlistarmaðurinn

Nú verð ég að skrifa hratt. Ég á von á heimsókn frá norðurhluta Danmerkur. Prentarinn Steffen kemur frá Álaborg. Hann er fulltrúi finnskrar prentsmiðju. Steffen hefur boðað komu sína klukkan níu (með brauð og sætmeti, eins og hann áréttaði í SMS sem barst fyrir nokkrum mínútum) Nú er klukkan 8:27, nei 8:28. Satt að segja hafði ég gleymt þessu stefnumóti – ég á grunsamlega létt með að gleyma fundum með prenturum – og ef ég hefði ég ekki fengið textaskilaboð um að prentarinn væri staddur í ilmandi bakaríi þar sem bráðinn sykur lak af einhvers konar vínarbrauði, og prentarinn íhugaði að færa mér, hefði ég bara setið hér grunlaus um að á næsta leiti sæti prentari undir stýri á bíl, fullhlöðnum af dísætum kökum og grófu brauði, með stefnuna á kontórinn minn.

Það mætti halda að einhver lesi þessar dagbókarfærslur, því í gær, eftir að ég hafði skrifað um efasemdir mínar um bókabransann, barst mér tölvupóstur frá athafnamanni á Íslandi (hann er víst staddur í Frakklandi eins og stór hluti þjóðarinnar) þar sem hann kom með tilboð um alþjóðlega viðskiptasamvinnu. Ég og hann ættum að rugla saman reitum okkar og setja á fót fyrirtæki á sviði sem ég er alfáfróður um. Uppástunga hans vakti gleði hjá mér – ég er alltaf til í að hoppa á svona framhjákeyrandi vagna – en ég er líka jafnfljótur að fyllast efasemdum.

Í þessu leit ég út um gluggann, út á brautarpallinn, og hvað sjá  augu mín? Engan annan en hinn svonefndan tónlistarmann. Hann stendur fyrir utan gluggann hjá mér og tvístígur, eins og hann sé ekki viss hvort hann eigi að stíga upp í lestina til Helsingör, sem rétt í þessu renndi inn á brautarpallinn. (Ég reyndi að grípa símann og taka mynd af honum en hann flutti sig bak við skilti). Ég veit ekki hvort maðurinn leikur á hljóðfæri, en ég hef ályktað sem svo, þar sem hann gengur alltaf með leðurhanska, líkt og hann hafi dýrmæta fingur, og svo er hann allur svo viðkvæmnislegur og melankólskur. Dökkur á brún og brá og niðurlútur. Ég hef oft séð hann úti á götu hér í bænum, hjólandi og hefur eftirlit með tveimur litlum börnum – á tveimur litlum reiðhjólum – sem hann ræður illa við. Hann talar alltaf í lágum hljóðum við börn sín.

IMG_7752 2
Skrifstofugluggar forlagsins sem vísa út á brautarpall.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.