Espergærde. Osteria Francescana

Skyndilega og algerlega óvænt er kominn föstudagur. Í tilefni dagsins tók ég með dósabjór frá Carlsberg  og setti í ísskápinn. Sem nýr leigusali hér á lestarstöðinni verð ég að geta boðið Jesper, leigjanda okkar, upp á “fredagsøl”.

Nú er bara rúm vika þar til við keyrum af stað til Ítalíu í okkar árlegu heimsókn til LaChiusa. Við eigum von á góðum gestum. Palli Vals  og Nanna koma í heimsókn. Það verður aldeilis fyndið að sjá þau við leik og störf í hinum frumstæða hluta Ítalíu. Suður-Ítalía er ekki sú drauma-Ítalía sem svo margir þekkja. Á okkar svæði er fólk fátækt bóndafólk sem lifir og hrærist fyrir ólífur og tómata.

Við höfum ráðgert að keyra í rólegheitunum niður Evrópu, stoppa í Þýskalandi og keyra svo áfram til ítölsku borgarinnar Modena. Fyrir nokkrum mánuðum sá ég nefnilega á Netflix, sjónvarpsmyndaflokk sem ber nafnið Chefs Table og fjallar um úrvalsmatreiðslufólk og veitingastaðina þeirra um víða veröld. Þættirnir voru sex og var fjallað um:

Mjög flott sjónvarpsefni. Sá af þáttunum sem mér þótti áhugaverðastur fjallaði um ítalska meistarakokkinn Massimo Bottura og veitingahúsið hans í Modena, Osteria Francescana. Við vorum einhver staðar í Chile þegar ég sá þáttinn um Massimo og við Sus ákváðum þegar í stað að þetta veitingahús skyldum við einhvern tíma kíkja á. Nokkrum vikum seinna þegar Sus settist niður og ætlaði að panta borð  var allt uppselt og nú í síðasta mánuði var tilkynnt að staðurinn hefði verið valinn besti veitingastaður í heimi, verðlaun sem NOMA og El Bulli hafa unnið. Nú bera hvorki El Bulli né Noma lengur fram veitingar. Ég vona að Osteria Francescana lifi titilinn af. Ég hafði gert ráð fyrir því að löng bið yrði þar til við gætum komist að hjá Massimo. En í gær sagði Sölvi Dúnn mér að hann ætlaði að bjóða mér bæði á Fäviken og Osteria Francescana svo það verður kannski ekki svo löng bið þegar allt kemur til alls. Þegar maður hefur ungan mann í biðröðinni getur allt gerst.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.