Espergærde. Helgaruppgjör

Aftur mánudagur. Las viðtal við Claus Meyer um helgina, langt viðtal um að flytja til Bandaríkjanna með alla fjölskylduna og opna þennan líka risa veitingastað í hinni frábærlega flottu byggingu Grand Central Station í New York sem tekur 110 manns í sæti. Og um að vera athafnamaður í útlöndum. Þetta var frekar áhugavert viðtal. Claus Meyer er þekktur viðskiptajöfur hér í Danmörku, kokkur, veitingahúsa- og bakaríseigandi. Heldur fyrirlestra og stofnar kokkaskóla fyrir fólk sem ekki funkerar. Fyrir skömmu seldi hann veldi sitt í Danmörku fyrir 300 milljónir danskar, (6 milljarða ísl. kr.) til að byrja nýtt líf í Bandaríkjunum. Claus er kaótískur en hefur aðstoðarmanninn, Magnús, sem tekur til í allri óreiðunni eftir Claus.

Ég hef alltaf verið heillaður af svona stóhuga mönnum sem leggja mikið undir í verkefnum sínum. Claus Meyer þarf til dæmis að ráða 400 manns til að starfa við veitingahúsið í næsta mánuði. Hann er búinn að hanna veitingahúsið, hann er búinn að þróa matseðilinn. Hann er búinn að byggja sitt eigið reykhús þar sem hann reykir kjöt og fisk. Hann er búinn að byggja bakarí inni í veitingahúsinu. Þetta er grand. En tafirnar á opnun eru orðnar meira en mánuður og kostnaðurinn er farinn að nokkru leyti úr böndunum. Nú þegar er kostnaðurinn orðinn 280 milljónum  króna hærri en hann hafði reiknað með. Allt er á fullu. En á sama tíma þrífast börnin hans ekki, og konan er frústreruð með lífið í Bandaríkjunum. Maður spyr sig hvort þetta bardús er þess virði að setja allt á annan endann. Það eru mörg verkefni sem mig dauðlangar að setja í gang en ég get ekki hugsað mér að setja allt á annan endan og koma á ójafnvægi í mitt góða líf.

IMG_7769
Frá helgargöngutúr í safni Rudolfs Tegners

Ég las líka aðra grein um helgina, grein eftir Lindu Knausgård, konu Karl Ove Knausgård, sem hét: „Fótbolti og kærleikur“. Ég verð að segja að hefði þetta ekki verið kona Karl Ove sem skrifaði þessa grein hefði hún aldrei verið birt í Politiken. Greinin fjallaði mjög óljóst um gleðina við úrslitakeppni í fótbolta, Evrópukeppni eða heimsmeistarakeppni, og ástarlíf hennar sem hún tengir við þessar úrslitakeppnir síðustu árin. Þetta var ansi loðin grein þar sem Karl Ove stóð á hliðarlínunni (hann hafði lánað henni tölvuna sína til að skrifa greinina).

Annars voru foreldrar Sus í heimsókn yfir helgina, svo hún hafði skyldur á meðan ég vafraði um í útjaðrinum, sá fótbolta, spilaði tennis og sat úti í sólinni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.