Espergærde. Hinir gráðugu

Ég hafði einsett mér að byrja hvern morgun á að skrifa færslu dagsins hér á Kaktusinn. Hugmyndin hjá mér var að hefja skrif áður en hin eiginlegu skrifstofustörf taka yfirhöndina. Vandinn er bara sá að ég freistast til að kasta mér úti einhver verkefni sem hafa hvílt á mér á leið til vinnu eða um nóttin áður en ég hef mína daglegu færslu. Ég byrjaði til dæmis morguninn í morgun með að skrifa langt bréf til umboðsmanns Dan Browns sem við gefum út hér í Danmörku. Það er ekki alltaf gott að vita hvað drífur umboðsmenn metsöluhöfunda, en eitt er víst að peningar knýja ansi margt í athöfnum þeirra, svo að manni finnst stundum djúpt á skynsemi en grunnt á peningagræðginni. Nú erum við komin svo langt í lífinu hér á forlaginu að ég er orðinn algerlega ískaldur gagnvart þessum peningadrifnu umboðsmönnum. Ef leiðindin í kringum útgáfu bóka höfunda þeirra eru farin að vega of þungt, er ég fullkomlega rólegur með að senda höfundinn á annað forlag. Án þess að hugsa mig tvisvar um.

Annars er ég farinn að undirbúa komu hjónanna Kristínar Valsdóttur og Eiríks Hjálmarssonar til Danmerkur. Þau hjónin hafa tekið yfir það hlutverk sem Palli og Nanna hafa gengt síðustu ár; að búa í húsinu okkar hér í Espergærde á meðan við pössum upp á ólífutré á Ítalíu. Palli og Nanna mæltu með þeim til að passa húsið okkar og við treystum þeim. Ég þekki þau hjón, Eirík og Kristínu, ekki mikið. Ég veit vel hver Eiríkur er enda vorum við samskóla í Hamrahlíð. En Kristínu þekki ég ekki. Hún upplýsti mig þó um að við höfðum átt langt spjall í flugrútu á leið til Keflavíkur fyrir mörgum árum, ég þá á leið á bókamessu í London, og hún sem ábyrgðarmaður hóps kórbarna sem ætluðu að fljúga til einhvers söngmóts í fjarlægu landi. Ég kannast við þessa lýsingu, að hafa setið við hlið ungrar konu sem sussaði á söngelsk börn og spjallað við hana. En ég get ekki tengt andlit við þessa ágætu minningu. Þetta er víst í eina skiptið sem ég hef séð Kristínu Valsdóttur, sem bráðlega á eftir að reka búið á Søbækvej í sumar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.