Ochsenfurt. Mjólk gerir vömb á fólk

Það var stress í morgun. Við þurftum að vera komin út úr dyrunum klukkan 06:00. Ferjan frá Rødby siglir klukkan 8:15. Því vöknuðum við fyrir klukkan fimm og  svo þurfti að útbúa morgunmat og ganga frá því síðasta áður en við lögðum af stað til Ochsenfurt á leið til Ítalíu. Taugarnar voru þandar. Ég var að ganga frá hleðslutækjum úti í gangi þegar ég heyrði neyðarhróp inn úr eldhúsi. Ég var sannfærur um að nú hefði eitthvað alvarlegt farið úrskeiðis. Ég stökk niður tröppurnar niður í eldhúsið til að sjá hvað gengi á.Sus gólaði og henti tómri mjókurhyrnu niður i vaskinn og Númi stóð ráðvilltur með disk fullan af hafragrjónum í höndunum.
“Ohhhhhh,” hrópaði Sus.
“Ég var ekki búinn að fá neina mjólk út á hafragrjónin,” sagði Númi og otaði fram disknum með hafragrjónunum.
“Þú sagðist vera tilbúinn,” sagði Sus greinilega örvæntingarfull yfir mjólkinni.
“Já, ég sagðist vera nærri tilbúinn. Það getur ekki verið mér að kenna að þú hefur hellt mjólkinni í vaskinn.”
“Ég hélt að þú værir búinn að fá mjólk. Ég vakti Piu í gærkvöldi til að fá lánaða mjólk!!”
“Já, en ég var ekki búinn að fá neina mjólk og svo hellir þú mjólkinni niður.”
“Ohhhhh!”

Ég sá að ég gat ekki hjálpað hér. En að lokum tókst okkur að koma áfallalaust út úr húsi fyrir klukkan sex og nú 900 km seinna erum við á hótelherbergi í Oschenfurt og bíðum eftir að leikur Íslands og Englands hefjist. Tvær mínútur í leik.  Fyrr i dag sáum við Ítalíu vinna Spán. Glæsilegt.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.