Modena. Forza panino

Ho. Aðrir 800 kílómetrar að baki og nú erum við komin til Modena. Ökuferðin í dag í gegnum Þýskaland, Austurríki og Ítalíu virtist vera ævintýralega löng. Þótt ég keyrði á 140 km hraða fannst mér við varla mjakast áfram. Ég barðist við þreytuna seinn part leiðinnar og þurfti að stoppa á bensínstöð til að fá kaffi. Við það hresstist ég til muna og tókst að keyra síðasta hluta leiðarinnar með fulla meðvitund.

Við komum um kvöldmatarleitið til Modena sem er mjög ítalskur bær. Hallærislegur en um leið mjög sjarmerandi. Bærinn er sannkölluð matmekka. Hingað koma menn langan veg til að borða og drekka enda frábærir veitingastaðir á hverju götuhorni.

Um áttaleytið settumst inn á nýjan stað, Da Panino, einskonar samlokustað í eigu Massimo (eiganda Osteria Fransecana). Veitingastaðir opna miklu seinna hér á Ítalíu, svo við urðum að láta okkur samlokur nægja í kvöld, því enginn gat beðið fram til 21:00 með að borða.  Máltíðin var ótrúlega góð; samlokur, skinka, ólífur, ostur, tómatar og bjór. Mér var stórlétt eftir að hafa borðað. Allt var gott.

IMG_7817
Modenakokkarnir undirbúa sig fyrir kvölddagskránna.

Við búum í miðbæ Modena, hinum svokallaða gamla bæ. Hér hef ég búið áður. Fyrir mörgum árum. Ég man satt að segja lítið eftir þeirri dvöl. Þetta var sem sagt fyrir langa löngu og ég hafði ákveðið að fara á bókamessuna í Bologna til að reyna að selja Blíðfinn til útlanda (og ég seldi hann til Þýskalands í þessari ferð, yo). Þegar ég settist niður til að bóka hótelherbergi í bænum var ekkert svefnpláss að fá. Allt var uppselt, eða fullbókað. Mér var boðið hótelherbergi í Modena sem er 50 kílómetra leið frá Bologna. Andri Snær, forsetaframbjóðandinn, lenti í sömu vandræðum. Við gistum  því báðir í Modena. Hann hafði bíl, enda verðandi forsetaframbjóðandi, svo hann keyrði mig fram frá hóteli og inn á messuna og aftur til baka, eins og ég væri forsetaframbjóðandi.

Modena frá þessum tíma er því miður hulin minnisþoku. En ég man eftir að Sigurbjörg Þrastardóttir var með okkur á veitingahúsi og talaði ítölsku, eða að minnsta kosti var annað hvert orð sem hún sagði „allora“.  Það er ítalska.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.