Modena. Hinn syndugi taðskegglingur

Taðskegglingur. Það orð kemur upp í hugann þegar ég horfi á sjálfan mig í spegli. Nú hef ég ekki rakað mig í tvo daga og í augnabliks brjálæði ákvað ég að safna skeggi á meðan ég er á Ítalíu. Skeggvöxturinn hefur alla tíð verið afar lélegur hjá mér og ekki var hann betri þegar ég var yngri. Hann hefur heldur ekki versnað. Skeggið vex á höku og fyrir neðan mitt stóra nef. Annars einkennist hárvöxturinn í andlitinu af skallablettum, stórum skallablettum. Það tilheyrir, finnst mér, að vera alskeggjaður í andlitinu þegar maður gengur á milli ólífutrjánna.

Við gegnum um miðbæ Modena í morgun og ég kann enn betur við borgina en Bologna sem ég hef alltaf verið svo ánægður með. Þangað hef ég komið að minnsta kosti þrisvar sinnum. Modena er mjög vinaleg, lítil, en lífleg borg. Hér er fallegt. (Annars finnst mér orðið „fallegt“ ofnotað á íslensku. En hér finnst mér orðið rétt notað.)

Í dag borðuðum við hjá Massimo á veitingastaðnum hans sem skyndilega hefur fengið titilinn besti veitingastaður í heimi. Numero uno. Massimo er það sem á íslensku kallast: svolítill ruglukollur. Ég er ekki ókunnur tilfinningunni. Lífið keyrir áfram og maður lendir í nýjum aðstæðum sem maður heldur að maður skilji en það kemur í ljós að maður hefur misskilið að minnsta kosti helminginn og allt í einu er maður kominn í aðstæður sem í mínu tilfelli, og hjá Massimo, reyndust miklu betri en maður hafði reiknað með og kannski hafði átt skilið. Svona leikur lífið stundum við mig og stundum við Massimo. „Snæi, þú ert hamingjuhrólfur,“ var sagt við mig fyrir mörgum árum. Ég varð glaður þegar ég heyrði þetta sagt og ég gladdist yfir því að það var rétt. Og enn í dag lít ég á mig sem hamingjuhrólf.

IMG_7846
Þetta er salatdiskurinn hjá Massimo. Eins og litskrúðugt blómabeð.

Að minnsta kosti rekur Massimo besta veitingastað í heimi 30 árum eftir að hafa verið fullkomlega desperat ungur maður í New York, og 20 árum eftir að hafa opnað veitingastað í Modena sem enginn virti viðlits. Matseðilinn skildi enginn, enginn Ítali með sómatilfinningu borðaði hjá Massimo. Fyrstu árin eftir að Massimo opnaði Osteria Fransescana var staðurinn mannauður kvöld eftir kvöld. Enginn borðaði hjá hinum unga kokki. Það var alger tilviljun (þrumur, eldingar og regnflóð á hraðbrautinni) að stærsti og virtasti veitingahúsagagnrýnandi Ítalíu lenti inni á veitingastaðnum hans Massimo og skrifaði frægan dóm um staðinn í víðlesnasta dagblaði Ítalíu. Og eftir það fékk veitingahúsið frægð sína sem hefur þróast jafnt og þétt í átt að heimsfrægð síðustu ár.

Að borða á svona veitingastað er góð skemmtun. Maður gleymir ekki þeirri reynslu. Maður einbeitir sér að matnum, maður einbeitir sér að lykt og bragði. Maður einbeitir sér að þeim sem borða með manni. Og líka því sem ber fyrir augu. Allt er gert til að upphefja skynjunina. Augu, nef og munnur eru í viðbragðsstöðu. Öll skynfæri eru titrandi af eftirvæntingu. Ég ætla ekki að lýsa matnum. Allt var gott. Allt var gert til að kalla það besta fram í móttækilegum manni.

Eftir matinn gengum við heim á leið eftir sólbökuðum götum Modena og töluðum um að borða góðan mat. Núma fannst gaman að borða hjá Massimo en var viss um að pizzan niður í Vico á pizzastaðnum Il Trappeto, er alveg jafngóð fyrir bragðlaukana og maturinn hans Massimo. Við Sus vorum hinsvega sammála um að máltíðin væri ógleymanleg.

Á leiðinni áttum við leið framhjá lítilli kirkju í þröngri götu og ég fékk næstum óstöðvandi löngun til að ganga inn. Kirkjan var opin og á eftir mér komu hinir fjölskyldumeðlimirnir. Kannski var köllunin að ganga inn svo óslökkvandi vegna þess að ég er alinn upp í lútersku og ég  er nýkominn út af veitingastað og hef haft það svo gott. Inni í kirkjunni voru 6 skriftarstólar. Enginn skriftaði. Enginn var inni í kirkjunni. Loftin voru skreytt með myndum af englum og María horfði á mig frá altarinu. Hún var sorgmædd. Ég hafði vonað að einhver spilaði músik. Ef einhver hefði leikið fallega á kirkjuorgelið hefði örugglega getað fellt tár.

IMG_7850
Skriftastólinn.

Það var heldur enginn prestur í kirkjunni til að taka við syndajátningum. Ég velti fyrir mér hvað ég hefði sagt ef ég hefði sest inn í einn af þessum litlu syndaklefum frammi fyrir skriftaföður og játað syndir mínar. Hvaða syndir hefði ég sett í forgang. Hvaða synd hefði ég sett efst á syndalistann. Það er af nógu af taka. Ég er syndugur maður, en ég vil gera mitt besta.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.