Vico del Gargano. Að lífga hússálina

Tvær nætur að baki í LaChiusa. Fyrsti sólahringurinn er alltaf dálítið tens. Eða að minnsta kosti eru mínar taugar alltaf þandar. Húsið hefur verið í vetrardvala og á þessum fyrsta sólarhring kemur í ljós hvað hefur látið undan tönnum vetrarins. Húsið þarfnast ljóss og lofts til hússálin lifni við. Maður er þreyttur eftir langa keyrslu og svo virðast verkefnin  við að fá húsið aftur á lappirnar dálítið yfirþyrmandi. En strax í gær fann ég að róin var farin að síga inn.

Davíð var spenntur fyrir að byrja að hita pizzaofninn upp og dagurinn í gær fór meira eða minna í að safna brenni og halda eldinum í ofninum lifandi. Við byggðum ofninn í fyrra svo við erum enn amatörar í rekstri pizzaofns. Sérfræðingarnir hér segja að maður eigi að hita ofninn hægt og rólega upp í fimm daga áður en fyrsta pizzan fer í ofninn. þannig nái maður upp grunnhita, raki og kuldinn í ofnsteinunum hverfur. Fyrsti dagur að baki og þó að enn sé snemma morguns er komin pressa frá Davíð að kveikja aftur upp.

IMG_7862
Davíð fylgist með eldinum

Frá svölunum hér í LaChiusa, þar sem við borðum morgunmat, er útsýn yfir dalinn. Hér eru engin hús svo langt sem augað eygir, bara nokkrar rústir sem hafa verið yfirgefnar fyrir tugum ára. Dalshlíðarnar þaktar ólífutrjám frá dalsbotni og upp á fjallstopp. Frá sólarupprás fyllist dalurinn af köllum bændanna sem passa ólífutrén sín, saga og klippa, klappa og strjúka. Lífið snýst um ólífutrén. Einn og einn bíll keyrir eftir veginum sem liggur fyrir neðan húsið, svo fáir að maður spekúlerar í hvaða erindi menn eigi hér inn í þennan ólífudal. Annars eru það engispretturnar sem sjá um músikina.

Uppi í Vico virðist lífið hafa staðið í stað síðan í fyrra. Ekkert virðist breytast. Gömlu karlarnir sitja á torginu eða á kaffistéttum og tala um ólífur og tómata, stundum vinnuvélar. Hnetusalinn hefur aðeins bætt á sig, vömbin strekkir svo á skyrtunni að maður bíður eftir að skyrtutölurnar láti undan og skjótist af. Hér er okkur heilsað með handabandi, fólk sem maður veit ekki einu sinni hvað heitir. Við erum velkomin í þorpið.

Í gær tókst mér að brjóta einu gleraugun sem ég hafði með. Það var ekki gott því ég get ekki lesið án gleraugnanna. Við gengum um götur Vico í gær til að reyna að finna ný gleraugu. Eftir stutta leit fundum við gleraugu í hálfgerðri sjoppu í miðbænum. Söluturninn gefur sig út fyrir að selja sígarettur og frímerki og annað smálegt. Inni í sjoppunni, á afgreiðsluborðinu, var lítill standur með Zippo-gleraugum. Safn af ljótum, litríkum gleraugum. Við höfum stundum reynt að kaupa frímerki hjá gömlu konunni sem rekur þessa sjoppu en hún hefur alltaf sama svar: “Ó, nei frímerkin eru því miður uppseld.” Frímerkin hafa verið uppseld frá því við komum fyrst til þorpsins. Við spurðum líka í gær hvort hún ætti frímerki. Nei, því miður voru þau bara uppseld. Enn og aftur. En ég keypti tvenn gleraugu, verð 20 euros. Ég held að þetta sé hápunktur viðskiptasögu þessarar sjoppu. Nýtt veltumet.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.