Vico del Gargano. Umkringdur snákum

Í næstu viku streyma  vinir og kunningjar hingað til Vico. Það verður gaman. Fyrstu gestir til að koma eru nýliðar hér í Vico, Palli og Nanna. Á síðasta ári voru Palli og Nanna í húsinu okkar á Søbækvej, eins og undanfarin ár. Í fyrra sendi ég þeim SMS héðan frá LaChiusa með smámyndum af lífinu í dalnum og uppi í þorpi. Ég vona að ég hafi ekki teiknað upp ranga mynd, of rómatíska. Það væri ekki gaman ef þau yrðu fyrir vonbrigðum þegar þau mæta veruleikanum hér.

Sanne, Hinrik (hinn nýji kærasti Sanne) og Jónatan, sonur Sanne, eru væntanleg hingað þann 9. eða 10. júlí. Mér skilst að Sanne eigi í erfiðleikum með húsið sitt sem er í næsta dal við LaChiusa dalinn. Sanne er háð því að leigja húsið út til að borga af eigninni. Við hittum Pino, bareigandann, í gær sem sagði að húsið væri “surrounded by snakes!” og þeir sem höfðu leigt húsið hefðu flúið öskrandi frá húsinu. Ég held að þetta sé ýkt lýsing, en snákarnir eru að minnsta kosti ekki vinsælir hér um slóðir. Hinrik, trommari, og nýbakaður kærasti Sanne er dauðhræddur við snáka. Það verður því æsispennandi dvöl hjá þeim hjónum í snákahreiðrinu. Sanne á líka von á alls konar gestum; Rikko og Mette, systur sinni og mági.

Þann 12 kemur svo auglýsingamógullinn Carsten, the wife, the baby and the twins, eins og fjölskyldan eru kölluð hér (og nú er enn vitnað í Pino). Pino veit ekki að kona Carstens heitir Sus, hún gengur bara undir nafninu “the wife”. The baby er dóttir Carstens og Sus, heitir Rosa og er held ég að verða 12 ára. The  twins, eða tvíburarnir, Johann og Karl Emil eru nýútskrifaðir stúdentar. Að vísu kemur bara annar tvíburinn í ár, Karl Emil. Carsten er eigandi auglýsingastofunnar Motor, hann er mikill kokkur, vínexpert og almennt lífsstílssérfræðingur og getur talað hvern mann í kaf. En hann er skemmtilegur, fjörugur og óvitlaus. Sus er rólegri. Hún er þægileg í umgengni og umber eiginmannsins óstöðvandi orðaflaum með ró og umburðarlyndi.

IMG_7883
Æfing fyrir LaChiusaOpen 2016

Tveir dagskrárliðir eru þegar skipulagðir í ár. LaChiusaOpen borðtennismótið sem haldið hefur verið samfleytt í 4 ár. Núverandi LaChiusaOpen meistari er Númi sem vann mig í æsispennandi úrslitaleik síðasta ár. Það verður erfitt fyrir Núma að verja titilinn. Carsten og fjölskylda er ekki ógn, veit ekki með Palla og Nönnu (mig minnir að Palli hafi sýnt ágæta takta í bílskúrnum í Álftamýri í gamla daga þegar þar var borðtennisborð). Sanne hefur verið lunkinn en stóra spurningin er trommuleikarinn Henrik. Getur hann slegið taktinn með borðtennisbolta? Hinn liðurinn er ferð út til Trimiti-eyjanna þar sem við leigjum bát, með nesti, vín og bjór og syndum við eyjarnar í hinum fagurbláa sjó. Ferðin í fyrra var vel heppnuð, en veitingarnar sem skipstjórinn bauð upp á voru kannski ekki alveg í topp.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.