Vico del Gargano. Rennumenn

Þriðjudagur, það er morgunn og klukkan er 9:30. Ég bíð eftir að rennumaðurinn svokallaði komi. Hann sagðist koma klukkan 8:30 en hér, nákvæmlega í þessum heimshluta er stundvísi ekki í hávegum höfð. Alveg síðan við byrjuðum að byggja LaChiusa höfum við mátt bíða ófáar mínútur, klukkutíma, eftir mönnum sem hafa lofað að mæta á umsömdum tíma á stefnumót en líta svo á að klukkutími eða tveir skipta engu máli. Í dag vonumst við til að geta fengið rennumanninn til að setja upp þakrennur, en þeim var stolið fyrir fjórum árum. Í fjögur ár höfum við reynt að fá Peppino, okkar ágæta arkitekt og verktaka, til að setja upp þakrennur. Án þakrenna rennur regnið ofan af þakinu, niður eftir húsveggjunum og skilur eftir sig svartar rákir. Hvert sumar hef ég málað húsið því annars væri hörmung að horfa upp á LaChiusa, allt í svörtum regnrákum.

Árangurslaust höfum við reynt að fá Peppino til að skipuleggja rennuuppsetningu. Ég vildi að ég gæt gert þetta sjálfur en húsið er svo hátt að enginn venjulegur stígi nær alla leið upp á þakbrún. Við erum sem sagt ósjálfbjarga með rennuviðgerðir og því höfum við stólað á Peppino sem hefur ár eftir ár lofað að setja upp rennur en einhvern veginn alltaf tekist að fresta því. Peppino hefur gert margt gott hér í LaChiusa; meðal annars byggt okkar fína pizzaofn.

10:18 og hér koma þeir, rennumaðurinn og Peppino!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.