Vico del Gargano. Saga um rán

Fyrr í sumar, nei það var víst í vor, að við Palli Vals gengum saman um okkar sameiginlegu bernskuslóðir. Við hófum gönguna við Álftamýri 41, við mitt gamla heimili. Ég man hvað mér fannst átakalegt að sjá húsið í þeirri niðurníðslu sem allt hússins tréverk og múrverk bar vitni um. Þetta  raðhús var verðlaunað bæði fyrir arkitektúr og fallega garða. Málningin var flögnuð og stórar skellur voru í múrverki. Þarna stóð ég virti fyrir mér mitt gamla heimili og þegar augun numu staðar við herbergisgluggann þar sem ég sjálfur hafði sofið og leikið í mörg ár skaust skyndilega upp í huga mér minning um langa daga við skrifborð herbergisins þar sem ég sat og skrifaði mína fyrstu og síðustu spennusögu. Dag eftir dag hamraði ég á ritvélina hans pabba og samdi sögu um bankarán og flótta. Ég var gersamlega heltekinn af þessu verkefni, tíu eða ellefu ára gamall, að skálda sögu um hvernig áætlun um bankarán verður til, framkvæmd glæpsins og svo snilldarlegan flótta eftir vel heppnað rán.

Ég sagði aldrei neinum frá rithöfundarmaníu minni en hugur minn var dögum og vikum saman algerlega helgaður þessari sögu; ég gekk ekki eitt skref án þess að hugsa um söguna, persónur hennar og framvindu. Allt varð mér efni í söguna, búðarferðir, bílferðir, samtöl við félaga, sólgleraugu á borði, gaslaus kveikjari… Meira að segja var ég svo innilega áhugasamur um að gera söguna trúverðuga að ég lagðist í rannsóknir á bænum Godthåb á Grænlandi, þangað sem ræningjarnir áætluðu að flýja. Ég gafst þó upp, eða lagði söguna í það minnsta í salt, eftir að hafa aftur og aftur en án þessa að heppnast æltunarverk mitt, reynt skrifa senu sem væri algerlega óbærilega spennandi. Í sögunni voru flóttamennirnir með lögregluna á hælunum og höfðu lagt flóttabílnum í afskekktu skoti, felustað. Lögreglubíllinn nálgast jafnt og þétt. Ræningjarnir tveir, góðhjartaðir menn með stóra drauma, biðu í bílnum með öndina í hálsinum og óttuðust hið versta á meðan lögreglan mjakaðist nær og nær. Mér fannst spennan aldrei ná verulegum hæðum sama hversu vel ég lýsti biðinni eftir að lögreglubíllinn keyrði framhjá og hvað augnablikið væri ræningjunum mikil pína.

Síðurnar í þessu spennubókarhandriti sem ég lagði í salt árið 1972 urðu held ég yfir fimmtíu. Ég veit ekki hvað varð af sögunni. Handritið hvarf og gleymdist. Þegar ég gekk frá dánarbúi foreldra minna leitaði ég árangurslaust að þessum pappírum í geymslum og skúffum.

Ég rifja upp þessi söguskrif nú því ég les eina af bókum ítölsku skáldkonunnar Ferrante, sem segir frá lífi í fátækrahverfi í Napólí og ein af höfuðpersónunum, lítil stelpa, tekur upp á því að skrifa ástarsögu því hún telur það vera leiðina úr fátækt og til ríkidæmis. Ég var líka sannfærður, eins og flestir þeir sem rithöfundar sem ég hef unnið með, um að bókin sem ég skrifaði væri hin fullkomna metsölubók, ekki bara í mínu litla heimalandi heldur líka um víða veröld. Dræm sala væri bara klúður af útgefandans hálfu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.