Það logaði eldur í pizzaofninum hér við húsið í um það bil 8 tíma í gær. Fyrsta tilraun okkar til að hægsteikja svínakjöt, pulled pork. Aðalvandinn er að halda hitanum stöðugt rétt yfir 100 gráðum. Það tókst vel framan af en þegar við brugðum okkur niður á strönd og skildum ofninn eftir í eigin umsjá missti ég stjórn á hitanum sem rauk langt upp á meðan við vorum í sjónum. Sósan sem kjötið lá í gufaði upp og brann. Annars var kjötið í sjálfu sér vel heppnað.
Hér hjá okkur á Ítalíu er síesta hávegum höfð. Allt frá því við komum höfum við haldið okkur innan dyra eftir hádegismat og fram til klukkan þrjú enda er sólin steikjandi heit á þessum tíma. Eftir að ég hef gengið frá eldhúsinu eftir hádegismatinn hef ég lagst upp í rúm og lesið Ellena Ferrante (fyrstu bók í Napólíseríunni). Það er ágæt skemmtun. Að vísu finnst mér bókin höfða frekar til kvenna með öllum þessum lýsingum á vináttusambandi stúlkna sem eftir bókinni að dæma getur verið ansi flókið (Ég hef alltaf verið svo ánægður að vera strákur, alltaf til í leik, og ekki spekúlerað svo mikið hinu litlu valdabaráttu sem oft einkennir samband fólks.) Sus les fjórðu og síðustu bókina í sama bókaflokki og er innilega heilluð. Númi les bók eftir blaðamanninn Puk Damsgaard, sem er sérfæðingur í málefnum Miðausturlanda. Bókin fjallar um Daníel, ungan danskan blaðamann, sem tekin var til fanga af hryðjuverkafélögum Bin Laden og haldið í gíslingu hjá þeim í marga mánuði. Samfangar hans voru teknir af lífi en hann slapp sjálfur eftir mikinn tortúr. Davíð hlustar enn einu sinni á Harry Potter. Nú er hann kominn langt inn í bók númer fjögur. Það er sem sagt ró yfir þegar sólin er í hástöðu.