Vico del Gargano. Ástand vatnsins

Hér varð skyndilega vatnslaust í gær. Brunnurinn við húsið tæmdist algerlega. Sennilega var ég of góður við appelsínutrén í gær sem fengu vænan vatnssopa eftir að sólin settist. Það var heitt í gær.  Ég reyndi að ná í vatnsmanninn, manninn sem keyrir um á tankbíl og selur vatn til fólks eins og okkar sem  hefur brunn við húsin sín.  Vatnsmaðurinn svaraði ekki kalli mínu, en Pino sem er alreddari hér um slóðir náði í hann og svo var umsamið að vatnsmaðurinn kæmi klukkan 06:00 í morgun.

Það var því ekki mikið um uppvask í gær eftir kvöldmatinn og ekkert kvöldbað fyrir þá sem þess óska. Ekkert vatn.

Þegar ég lagðist til svefns í gær var ég klár á því að ég þyrfti að vakna fyrir klukkan 06:00 og taka á  móti vatnsmanninum okkar. Hann er eldri maður, vambmikill og ekki sérlega mikið fyrir að tala. Og þegar hann talar þá segir hann eitthvað á óskiljanlegri díalekt og hækkar bara róminn og endurtekur sig ef maður skilur ekki það sem hann segir. Stundum tekur sonur hans við vatnsbílnum, yngri maður með tískurétt skegg.

Ég vaknaði stundvíslega 5:59 og settist upp og gekk fram til að sjá hvort tankbíllinn væri kominn. Ég hafði vaknað af draumi um fótboltamanninn og landsliðsmanninn Hjört Hermannsson sem nú er nýlega genginn til liðs við Bröndby í Danmörku. Hjörtur þessi, sem ég hef sennilega aldrei hitt, er sonur Hemma Björns., sem var mikill vinur minn í æsku og fram yfir unglingsár. Við bjuggum hlið við hlið í Álftamýrinni og hittumst örugglega daglega um 10 ára skeið. Nú er hann orðinn virðulegur forstjóri tryggingarfélagsins Sjóvár, sem mér finnst bæði skemmtilegt og fyndið. En sem sagt sonur hans var í aðalhlutverki í draumnum. Ég vildi koma því á framfæri við hann (á einhverjum bar) að ef hann þyrfti á aðstoð að halda í Danmörku þá væri ég boðinn og búinn, sem ég er auðvitað líka í vöku. Hann líktist pabba sínum svo mjög að mér fannst ég vera að tala við Hemma.

Vantsmaðurinn kom ekki klukkan 06:00 eins og hann hafði gefið í skyn. Klukkan varð 07:00, klakkan varð 08:00, 09:00 og nú þurftu allir að komast á klósett og ekki var nokkur leið að sturta niður. Mjög óheppilegt. Niðurstaðan var að klósettið stíflaðist og er enn stíflað og klukkan er orðin 19:10. Vatnsmaðurinn kom klukkan 10:00. Sá yngri, sonurinn. Vinsamlegur og duglegur. Skeggið á sínum stað og sólgleraugun, sem líka eru tískurétt, sátu þráðbein á nefhryggnum.

Eftir að vatnsástandið komst í lag var hægt að vaska upp og koma aftur reglu á eldhúsið. Klósettið var stíflað og er enn og klukkan er orðin 19:13. Samt var ákveðið að baka snúða, kanilsnúða þótt hitinn væri 33 gráður fyrir utan eldhúsgluggann. Í mínum huga eru snúðar ekki sumarhitavara, þá vil ég heldur bjór. Snúðarnir runnu samt ljúflega niður þrátt fyrir allt og ég er búinn að borða þrjá ef ekki fjóra.

Það fór fyrir hjartað á nokkrum kvenlegum lesurum þessara kaktusfærslna að ég kallaði bók Ferrante kvennabók. Ég fékk skammir fyrir að flokka bækur á þennan hátt. Að sumar bækur væru bara fyrir konur. En bækur sem fjölluðu um karla væru fyrir alla. Það er nú misskilningur að ég haldi því fram. Ég sagði bara að bækur sem fjalla um hugarheim kvenna, höfða frekar til kvenna. Ég er karlmaður. Og nú er ég kominn með skegg. 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.