Vico del Gargano. Ég er

Lífið hér í LaChiusa líður áfram undir brennheitri sólinni. Ég kann vel við hitann og sjá allan gróður vaxa og dafna í birtu og hita. Sítrónurnar á sítrónutrénu eru margar en allar dökkgrænar. Smám saman verða þær gulari. Og ég vona að við fáum að tína fystu sítrónuna áður en Palli og Nanna kveðja á sunnudaginn. Í gær var pizzakvöld með fullt af gestum. Frábærlega upplífgandi.

Það er gaman að hafa þau Nönnu og Palla hér. Þau eru glöð. Og þau virðast ánægð. Palli fullur af sögum af gömlum dögum og líka nýjum. Hann er svo heppinn að vera vinamargur og á skemmtilega og áhugaverða vini sem hann getur sagt frá á svo notalegan hátt. Palli hefur alltaf verið vinsæll, það kemur ekki á óvart, það er eitthvað aðlaðandi við Palla. Nanna er lífleg, fjörkálfur og án þess að vita neitt um það þá held ég að fjörið hafi í upphafi laðað Palla að Nönnu.

Ég er sá sem ég segi að ég sé. Maður skapar eigin persónu með þeim sögum sem maður segir af sjálfum sér. Í mínum sagnaheimi hef ég alltaf verið sterkur. Þess vegna vakti það mig til umhugsunar þegar Palli rifjaði upp eitthvert atvik og tók fram að ég hefði ekki verið sterkur sem unglingur. “Þú varst svo lengi lítill.” Mér finnst ekki gaman að heyra að ég hafi verið lengi lítill og vil helst ekkert við það kannast. Ég var heldur ekki svo lengi lítill, kannski heldur seinþroskaðri en jafnaldrar mínir. En þegar Palli sagði að ég hafið ekki verið sterkur þá varð ég satt að segja steinhissa.

Í kvöld ætlum við að borða á LaChiusa del’Amore sem er mjög flottur og sjarmerandi veitingastaður hér í næsta dal.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.