Vico del Gargano. Onkel Palle kemur

Við höfðum gert ráð fyrir að Palli og Nanna næðu til Vico um síestubil eftir ökuferð frá Pescara og það reyndist rétt. Rétt um hálfþrjú kom titrandi sms frá ævisagnahöfundinum: “skv. Google verðum við í Vico eftir hálftíma.” Ég lá á fjórum fótum út á svölum og málaði svalarveggi sem þurftu á hvíttun að halda. Sólin sendi sína brennheitu geisla á bakið á mér og ég flýtti mér að klára verkefnið.

Ég pakkaði saman málningargræjum og vð Númi brunuðum upp í Vico til að taka á móti íslenskum gestum okkar. Á þessum tíma dags er Vico eins og draugabær. Verslanir eru lokaðar og alls staðar eru hlerar fyrir gluggum. Allt gert til að loka hitann úti enda óbærilegt að vera inni í 37 stiga heitri íbúð. Enginn er á ferli og sólargeislarnir eru svo heitir að það ýlfrar í öllu eins og allt sé á suðupunkti. Við feðar settumst í skugga tránna við Pizzicatobar og skimuðum eftir einhverjum sem kæmi keyrandi með hiki upp veginn að barnum. Við vorum einu gestirnir, allar með minnstu vitglóru héldu sig innan dyra.

Það leyndi sér ekki að þegar við sáum svartan Fiat Panda í fjarska nálgast varnfærnislega að þarna voru Palli og Nanna á ferð. Palli lagði bílnum og við fengum okkur í skyndi einn kaffibolla og vatn áður en við Númi lóðsuðum hjónaleysin eftir þröngum og holóttum sveitaveginum niður í dalsbotninn að LaChiusa. Palli var viss um að vegurinn væri einstefnuvegur en þegar hann uppgötvaði að það keyrðu líka bílar í öfuga átt við okkur varð hann flemtri sleginn. Hvernig geta tveir bílar mæst á þessum mjóa vegi?

Nú þegar gestir okkar hafa verið hér í 24 tíma erum við búin að kynna þeim það helsta hér um slóðir. Ströndin, veitingastaðurinn Il Trappeto, þorpið Vico, bar Pizzicato og Supermarcado. En fyrst og fremst er það útsýnið af svölunum hér í húsinu sem er engu líkt. Ólífutré upp allar hlíðar svo langt sem augað eygir og um kvöldið er stjörnubjartur himinn yfir okkur svo óradjúpur að það er engu líkara en að maður sjái inn í önnur stjörnukerfi. Og Palli er búinn að mæta bíl á veginum.

Í kvöld er skipulagt pizzakvöld og það eru 12 pizzur sem þarf að baka. Enda koma Sanne og Henrik með börnum sínum þremur. Palli og Nanna og svo við fjögur. Nú er galdurinn að ná upp hitanum í pizzaofninum því til að baka 12 pizzur þarf hitinn að vera ansi mikill. Það krefur tækni og útsjónarsemi. Búmm.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.