Vico del Gargano. Grenjandi regn… frakki

Hér er regn. Maður í regnfrakka. Heill dagur með grenjandi rigningu. Þrumur og eldingar. Allt er blautt. Ég er ánægður fyrir hönd appelsínutrjánna okkar sem við plöntuðum i vor. Átta ung appelsínutré standa í tvöfaldri röð fyrir ofan húsið. Venjulega bera appelsínutré ávöxt allt árið. Þannig að hægt er að tína þroskaðar appelsínur nánast allt árið. Nýju appelsínutrén eru af Valencia kynstofninum og sá stofn þroskaðar appelsínurnar bara í júlí. Aðeins einu sinni á ári, nákvæmlega þegar við erum hér. Nú eru þau enn ung, trén,  og engar appelsínur eru á trjánum fyrr en eftir tvö ár. Ég hef þurft að vökva trén tvisvar á viku því hitinn hefur verið svo svakalegur og sólin sterk. Því var léttir fyrir trén að fá almennilegt regn svo nú er allt gegnumblautt.

Það var því ekki mikil útivera í gær. Við fórum upp í þorp, allur hópurinn, og settumst á Pizzicato til að tengjast internetinu og fá kaffibolla. Í leiðinni keyptum við inn fyrir kvöldmatinn, pasta með nýjum safaríkum tómötum sem er soðnir niður í pastasósu. Um leið keyptum við tvö kíló af lauk til að búa til laukmauk. Allt á markaðinum kostar eina evru, 1 kg af appelsínum: ein evra, 1 kg af tómötum: ein evra, 1 kg af lauk: ein evra…

Svo leið rigningardagurinn við spil, Backgammon, Mæja og allskonar spil undir styrkri stjórn helstu spilakonu Íslands, Nönnu. Hún er spilakona. Ég reyndi fyrir mér með postmordernískum  leiktilburðum í Mæju með furðugóðum árangri. Spilafélagar mínir áttu erfitt með að túlka þennan leikstíl sem felst í því að ég leik að ég sé leikari. Því verður erfitt að sjá í gegnum lygina – en spilið Mæja gengur út á blekkingar og svik – þegar maður leikur mann sem leikur að hann sé ekki að ljúga. Tvöföld blekking líkist oft sannleika.

Á meðan regnið buldi á þakinu, þrumurnar drundu í dalnum og eldingarnar lýstu upp þungbúinn himininn sátum við áhyggjulaus og spiluðum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.