Vico del Gargano. Félagsgreind

Nú erum við gestalaus. Palli og Nanna kvöddu í morgun og héldu af stað heim á leið. Við sitjum hér eftir með okkar góða hversdag. Frábært að fá þau í heimsókn. Góðir gestir. Ég held að þeim hafi þótt gaman að vera hér hjá okkur í LaChiusa. Það er mín tilfinning.

Það er sunnudagur. Við erum búin að borða hádegismat á svölunum. Ég hef fengið kaffibollann minn eftir matinn og sit úti á svölunum með tölvugarminn minn, skrifa þessa færslu og hlusta á söng engisprettnanna. Þær eru háværar í dag. Sus er lögst upp í rúm og les. Davíð kúrir í sínum fleti og les líka. (Ævisögu Elon Musk. Daf kom út á svalir rétt í þessu til að tilkynna mér að þegar Elon Musk var aðeins 27 ára átti hann MacLaren bíl, flugvél og 200 fermetra íbúð!) Númi hlustar á músik.

Hádegismaturinn á svölunum fór í umræður um félagslega greind. Uppræðuefni sem Númi innleiddi. Við sátum nefnilega í gær uppi á staðarbarnum með öllum dönsku vinum okkar hér í Vico og Palla og Nönnu. Þetta var stór hópur, fimmtán manneskjur. Sonur auglýsingamógúlsins Carstens og Søs heitir Karl Emil og er 18 ára, var meðal viðstaddra. Hann hefur nýlokið stúdentsprófi og vinnur nú í Humlebækbiografen. Hann er sérstaklega þægilegur ungur maður, glaðlyndur, hefur góða almenna þekkingu og er alóvitlaus. Ég held að Núma langi dálítið að ná sambandi við hann en það hemur Núma hvað hann er feiminn. Í margmenni eins og í gær á Pizzicato dregur Númi sig til baka og er nær eingöngu hlustandi að samtölum þótt hann hafi bæði vit á umræðuefninu og áhugaverðar skoðanir á því. Samræðurnar í dag snerust um hvernig maður les aðstæður, hvenær maður kemur inn í samtöl og hvernig, og hvaða einföldu aðferðir maður getur beitt til að verða þátttakandi í samtölum í margmenni. Númi er sérstaklega næmur á aðstæður, fljótur að lesa fólk, hefur sérstaklega fínan og góðlátlegan húmor sem hann lætur sjaldan í ljós gagnvart ókunnugum. Hann getur því virkað alvarlegur fyrir ókunnuga.

Það eru bara fimm dagar eftir af vist okkar hér í LaChiusa. Sítrónurnar þroskast dag frá degi og ég vona að við náum að tína þær áður en við förum og búa til sítrónumarmelaði til að taka með norður á bóginn.

IMG_8031
Lúðrasveitin í Vico gengur um bæinn og spilar lúðrasveitalög. 

 

dagbók

Ein athugasemd við “Vico del Gargano. Félagsgreind

 1. Sæll vertu, Snæi

  Það var nú aldeilis gaman að rekast á allar þessar sögur fyrir tilviljun (var að leita að einhverju öðru einsog gengur)
  og greinilega er lífið hið indælasta þarna á Ítalíu.

  Af sjálfum mér er það helst títt að ég skrapp í nokkra daga til Berlínar f. 3 mánuðum, en sneri aldrei aftur. Bar margt
  gott til er leiddi það af sér, svo sem stórborgarstemningin sem mér leiðist ekki par og hlýlegar móttökur konu einnar.

  Láttu mig vita af þér ef þú átt leið um hér.

  Kv.
  Uggi

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.