Vico del Gargano. Bjartur bakvörður

LaChiusa Open borðtennsmótið er orðinn fastur liður í sumarfríinu hér á Ítalíu. Þetta er fjórða árið í röð sem við söfnumst saman hér við húsið, allir danirnir í Vico, til að keppa. Númi hefur nú unnið þrjú ár í röð eftir að Sanne vann fyrsta mótið. Númi vann aftur í ár eftir úrslitaleik við undirritaðan. (11-9 fyrir Núma eftir harða keppni).

Ég fylgist úr fjarska með hinum íslenska bókamarkaði. Fjarskinn er svo mikill að stundum skil ég ekki alveg hvað er að gerast. En stundum er útsýnið úr fjarskanum kannski betra en mitt niðri í grautarpottinum. Mitt gamla fyrirtæki Bjartur er flutt í íbúð á Víðimel, sem mér finnst satt að segja ekki sérlega smartur leikur. Flutningurinn grefur held ég undan forlaginu.  Pétur Már hafur kannski vanmetið mikilvægi þess að bókaforlag í forystu hafi góða bækistöð á réttum stað í bænum. Bjartur hefur lengi verið mikilvægur leikmaður á miðju íslensks bókmenntavallar en hefur af einhverjum ástæðum nú sett sjálfan sig í stöðu passívs bakvarðar. Nú eru kaflaskil hjá mínu gamla forlagi.

Og alla leið hingað til Ítalíu heyri ég um ólgu og gerjun á þessum litla íslenska markaði, fleiri en eitt nýtt forlag með bókmenntalegan metnað eru á teikniborðinu. En það er ekki átakalaust að stofna nýtt forlag og stefna á að koma því í úrvaldseildina. Uppheimar er gott dæmi um hvað leiðin á toppinn er torfær. Skammvinnur uppgangur og algjört hrun. Það er saga margra nýstofnaðra bókaforlaga á Íslandi. Síðustu ár hafa Bjartur og Forlagið nánast einokað íslenskan bókmenntaútgáfumarkað. En nú má greina að Forlagið og Bjartur eru í tilvistarkreppu og þar er að vænta stórra breytinga á næstunni. Mér heyrist að Jóhann Páll, sem hefur reynt sitt af hverju á sínum forlagsferli, sé orðinn saddur á sínu forleggjaralífi. Kannski er kominn sá tími að hann kveðji bransann og haldi út í heiminn með riddarakrossinn á brjóstinu.

Allt er í gerjun. Út við sjóndeildarhring sér maður gamla leikmenn úr efstu deild hita upp til að koma aftur inná, sumir eftir langt hlé, en aðrir eru á leið inn á völlinn eftir að hafa setið uppi í áhorfendastúku og fylgst álengdar með leiknum á bókmenntavellinum, og enn aðrir vilja byrja að leika fyrir nýtt lið eftir athyglisverð félagsskipti.

Annað sem maður tekur eftir að nýliðar í efstu deild eru sjaldséðir. Og engir efnilegir nýliðar í sjónmáli. Tommi í Sögum er orðinn gamall nýliði á markaðinum en sjaldan hef ég séð annan eins amatörisma í útgáfu eins og hjá Sögum. Það verður aldrei gott bókmenntaforlag. Sorry.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.