Fiatone. Heimsókn og tilboð

Ég er nýsestur eftir að hafa hlaupið 7 km, niður bratta brekku og upp sömu brekku aftur. Þetta er manndrápshlaup í hitanum hérna í Fiatone, í norðurhluta Toscana-héraðs. Kannski er ekki rétt að segja að ég hafi hlaupið 7 km. Ég hljóp niður brekkuna en gekk og hljóp upp brekkuna sem er snarbrött en ég hef ekki úthald eða krafta til að hlaupa alla leiðina upp.

Til Fiatone, í hús með sundlaug, komum við í gær og verðum hér í eina viku ásamt nágrönnum okkar frá Espergærde, Lars og Piu og börnum þeirra Ágústi, Cicile og Amelie. Í þessu húsi höfum við verið síðustu 3 ár, alltaf eina viku að sumri. Þetta er lúxushús, örugglega 350 fermetrar með stórri útisundlaug. Það er létt að vera saman með Lars og Piu, við þekkjum þau orðið svo vel. Og börnin hafa það gott saman.

Húsið hér og öll umgjörð er allt örðuvísi en í LaChiusa. Þar er enginn lúxus, engin sundlaug, bara friður, ólífutré, vindlar og sítrónutré. Daginn áður en við héldum frá LaChiusa fengum við óvænta heimsókn af eldri hjónum sem búa í risastóru húsi rétt við Vico-þorpið. Miklum kumbalda á þremur hæðum með aðstöðu fyrir vinnuvélar á neðstu hæð. Frá þessu húsi er langbesta útsýn í öllu Vicohéraði. Útsýn yfir sjó og land og alla leið út til hvíta bæjarins, Pescichi. Allur dalurinn með sínu silfruðu ólífutrjám liggur fyrir neðan húsið sem stendur efst í dalshlíðinni.

Klukkan var að verða sex og við vorum nýkomin af ströndinni. Ég hafði fengið mér bjór og blandað gin og tónik fyrir Sus. Við höfðum rétt sett okkur út á svalir með þessar fínu veitingar þegar bíll þeirra hjóna renndi í hlað. Græn Fiat Panda frá 1980. Bæði voru þau klædd í sitt fínasta púss og höfðu augljóslega bæði verið í baði. Ég var auðvitað hálfundrandi á þessari heimsókn. Lorenzo, eins og maðurinn heitir, byggði húsið okkar. Hann er sonur geitahirðis og er þekktur í Vicohéraði fyrir sína styggu lund og því kallaður Dýrið frá Umbruskógi. Sagan segir að hann hafi tekið landið sem húsið hans stendur með vopnavaldi. Hann hafði komið einn dag með stórvirkar vinnuvélar og byrjað að grafa fyrir húsinu. Skömmu síðar eiga valdsmenn frá sveitafélaginu að hafa komið til að stöðva framkvæmdir, sem voru auðvitað í óleyfi, en Lorenzo dró þá fram haglabyssu og skipað valdsmönnunum að hipja sig. Hann ætlaði að byggja hús. Síðan byggði hann sitt hús, risahús,  og enginn þorði að fetta fingur út í það.

En þarna voru Dýrið frá Umbruskógi og kona hans sem sagt komin til LaChiusa. Ég, makindalegur með minn Nastro Azzuro bjór, og hann, nýrakaður og vantsgreiddur í hnepptri stuttermaskyrtu og síðum buxum með straujuðu broti. Marina, kona hans, var líka vatnsgreidd og klædd í kjól með stóru blómamunstri. Hún var með eyrnarlokka í eyrunum. Við buðum þeim hressingu en þau vildu ekki þyggja neitt, hvorki vott né þurrt, en þau vildu gjarnan koma út á svalir og tala aðeins við okkur. Við gegnum út á svalir. Lorenzo byrjaði að tala um þakrennurnar sem þjófar höfðu stolið fyrir mörgum árum en Marina bar upp erindi heimsóknarinnar. Hún sagði að þau vildu bjóða okkur að kaupa húsið þeirra. Á mig runnu tvær grímur. Í fyrsta lagi var erfitt að taka þátt í tveimur samtölum samtímis, einu samtali um þakrennur og öðru um húskaup. Og það á ítölsku. Lorenzo var of feiminn til að bjóða húsið sitt til sölu. Því hélt hann áfram að tala um þakrennurnar á meðan kona hans bauð okkur húsið sitt til sölu. Þau vildu flytja, til Manfredóníu eða til Pescara þangað sem börnin þeirra voru flutt. Og húsið vildu þau selja fyrir 500 þúsund evrur.

Við vissum ekki hvað við áttum að segja. Hvað eigum við að gera með risahús í Vico? En við vorum nógu kurteis að segja að við vildum fá að hugsa málið. Þannig er staðan: við hugsum málið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.