Fiatone. Uggi sendir kveðju

Ég bætti hlaupatíma minn um 1:25 mín frá í gær. Enn er ég sestur, sveittur og þreyttur eftir mitt 7 km langa brekkuhlaup. Þetta er nú meiri tortúrinn sem maður leggur á sig í nafni betri heilsu, eða betra forms eins og það heitir. Hér í Fiatone er 32 stiga hiti og sólin dúndrar hitageislum sínum ofan í hausinn á manni á meðan maður puðar upp brekkuna. Ljóta vitleysan. Ég er gersamlega úrvinda.

Annars vaknaði ég í morgun til aldeilis góðrar kveðju. Ég opnaði augun klukkan 6:40 og um leið og ég kíkti á símann minn til að athuga hvað klukkan var sá ég tvenn skilaboð á skjánum. Efst stóð “Your stats are booming! Kaktusinn is getting lot of traffic.” Sem þýðir að óvenjumargir hafa lesið Kaktusinn síðasta sólarhring. Hin skilaboðin sem voru öllu gleðilegri voru “Uggi commentet on your blog.” Þetta var sjálfur Uggi Jónsson, staddur í Berlín, og lenti fyrir tilviljun inn á þessa dagbók mína. Ég varð mjög glaður að sjá skilaboðin frá mínum gamla prófarkalesara. Það var ósjaldan að Uggi bjargaði mér og bókum sem voru komnar á ystu tímamörk. Hann er hjálpfús maður hann Uggi.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.