Fiatone. Minn gamli leikfélagi

Ég þurfti að beita mig hörðu í morgun. Í miðri pizzaveislu í gærkvöldi ákvað ég að vakna fyrr en aðra daga hér í Fiatone og hlaupa strax og ég væri kominn á fætur. Númi sagðist vilja hlaupa með mér. Klukkan rúmlega sjö druslaðist ég á fætur og fann að ég var ansi aumur af harðsperrum í lærvöðvunum. Það tekur nefnilega ansi mikið á vöðvana í lærunum að hlaupa niður brattar brekkur. En ég harkaði af mér og læddist inn til Núma til að vekja hann. En það reyndist ekki létt. Allir krakkarnir: Númi, Davíð, Ágúst, Cicile og Amelia sofa saman inn í einu herbergi. Ég ýtti við Núma sem rétt rumskaði til að snúa sér á hina hliðina. Ég pikkaði aftur í Núma en hann var í djúpum svefni og ég gat ekki beitt mér við að vekja hann, því ekki vildi ég eyðileggja svefn hinna krakkanna. Ég leyfði honum því bara að sofa áfram en hljóp sjálfur af stað í mitt sjö km langa brekkuhlaup með öskrandi harðsperrur í lærunum.

Það hefur verið átakanleg sjón sjá þennan langa mann skakklappast af stað. Hlaupin niður brekkuna voru hrein pína. Lærvöðvarnari logðu af sársauka. Ég fann þó að það hafði mikið að segja, þegar ég byrjaði að hlaupa aftur upp í mót,  að sólin var ekki eins hátt á lofti og fyrri hlaupadaga. Hitinn  var ekki jafnóbærilegur.

Hingað berst látlaus straumur skilaboða frá áhugafólki um íslenskan bókamarkað. Svo virðist sem einhver hafi miðlað skrifum mínum frá því í síðust viku um íslenskan bókaútgáfu. Nú er það opinbert að minn gamli og góði vinur, Palli Vals, hefur tekið við Bjarti. Svona er lífið nú skrýtið. Við höfum leikið okkur saman síðan við vorum fimm ára gamlir. Síðar varð Palli svo helsti keppinautur minn á bókamarkaðinum þegar hann var skipaður útgáfustjóri Máls og menningar og ég stýrði mínu litla Bjartsforlagi. Og nú er hann allt í einu sestur í gamla stólinn minn. Ég er viss um að Palli verður góður útgáfustjóri, sérstaklega fyrir íslenska höfunda, því Palli er frábær ritstjóri. Hann tekur við góðu búi eftir Guðrúnu Vilmundardóttur sem mér fannst standa sig aldeilis vel í starfi sínu hjá Bjarti.

Margir hafa túlkað skrif mín í síðustu viku sem ég væri á leið til baka inn á forlagsbransann. Það er ég ekki, að minnsta kosti ekki í dag, kannski á morgun. Það væri freistandi að kaupa Forlagið og taka upp þráðinn í samkeppninni við Palla, hann hjá Bjarti og ég hjá The Evil Empire eins og Edda miðlun (Mál og menning) var kölluð á Bjartsskrifstofunni hjá okkur Jóni Karli í gamla daga.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.