Fiatone. Hjartað slær

Fyrst er nauðsynlegt að gefa skýrslu um hlaup morgunsins. Í stuttu máli bætti ég tíma gærdagsins um 21 sekúndu og þar með hef ég bætt hlaupatímann frá því ég hóf 7 km brekkuhlaupið hér í Fiastone um 3 mínútur og 43 sekúndur. Svona er nú það.

Mér var bent á færslu Braga Ólafssonar á bloggsíðu sinni,  um samstarf okkar til 13 ára. (Bragi er rithöfundur og ég gaf út bækur hans). Það kom mér satt að segja verulega á óvart að lesa biturleikann í þeim skrifum. Ég hélt að ég hafi alla tíð verið góður við Braga Ólafsson. En það fer fyrir hjartað á skáldinu að ég var ekki sérlega ánægður með síðustu bók hans sem ber titilinn Sögumaður og skrifaði um það hér á Kaktusnum. Ég ætla ekki að eltast við bloggskrif Braga, ergja mig á þeim eða svara þeim spurningum sem hann lýsir eftir svari við. Vildi bara festa á blað að í dag, þann 29. júlí 2016, hafi mér verið bent á þennan litla pistil eftir Braga Ólafsson sem ekki er ætlað að kæta mig. (Það var samt fyndið að hann kallar mig Snæbjörn, ekki Snæja, eins og ég sé ókunnugur maður. Ég skellihló.) Ég er, eftir sem áður, glaður og læt beisk skrif sem vind um eyru þjóta. Ég hef ekkert að gleðja höfundinn með akkúrat núna. Ætla því að setjast út á stétt og fá mér lítinn kaffibolla.

Á morgun keyrum við í norðurátt. Næsti áfangastaður er Chamonix í Frakklandi. Yo.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.