Chamonix. Góð saga í fjórum liðum

Við erum komin til smábæjarins Chamonix við rætur Hvíta fjalls, Monte Bianco, Mont Blanc. Yfir okkur gnæfa háir fjallstindar á báðar hendur. Við erum í Alpalandi 1000 km yfir sjávarmáli. Hér er stórkostlega fallegt, Alpafjöllin eru stórbrotin og tignarleg.

Í morgun hljóp ég rétt tæpa 5 km. Það var augljóst þegar ég hljóp eftir skógarstígunum að þungt regn hafði steypst ofan af himninum í nótt. Alls staðar voru drullupollar og hlaupastígurinn eitt drullusvað. Ég hafði í hyggju að hlaupa sjö eða átta kílómetra en ég var ekki nógu staðfastur í morgun til að ég hlypi í gegnum drullumall og djúpa polla svo ég sneri bara við og hljóp til baka.

Ég hef velt fyrir mér hvað gerir góða sögu að góðri sögu, hvað gerir bók að góðri bók. Ég hef ekki þann greiningarheila sem þarf til að setja það skipulega niður. Það eru óteljandi þættir sem skapa góða sögu. Ég gæti auðvitað byrjað á að telja upp það sem mér dettur í hug… það er góð hugmynd.

  1. Sagan ætti að hafa tilgang, vilja eitthvað þannig að lesandi viti hvers vegna sagan er sögð. Það sama gildir um persónur sögunnar, þær eiga að vilja eitthvað. Þó ekki væri annað en að eignast kött, kaupa kaffibolla. Höfundi skal sem sagt liggja eitthvað á hjarta sem hann er ákafur að miðla til þeirra sem hafa áhuga. Hugsunin má vera skýr. Höfundar með skýra hugsun skrifa skýrt. Þeir sem hafa loðna hugsun skrifa loðið.
  2. Í góðri sögu verður að minnsta kosti að vera ein persóna sem maður getur tengst, samsamað sig með eða haft samúð með. Ekki er verra að sögupersónan sem maður tengist lendir í skelfilegum raunum og hremmingum. Á þann hátt kynnist maður persónunni enn betur, bæði styrkleikum hennar og veikleikum. (Ég man til dæmis eftir stórkostlegum kafla úr bók Jóns Kalmans, Himnaríki og helvíti, þegar höfuðpersónan, persóna sem maður hefur djúpa samúð með, gengur langan veg í gegnum snjóbyl og ofsaveður til þess eins að skila bók á réttan stað. Það var kafli í lagi.)
  3. Sagan skal ekki lenda í tómagangi og endurtekningum. Hver setning á að hafa tilgang, annað hvort að varpa ljósi á persónu eða stuðla að framgangi sögunnar. Að lesa bók tekur oft langan tíma, að lesa bók getur verið góð skemmtun. Því er nauðsynlegt að höfundur hafi í huga að lesandinn telji tíma sínum vel varið í lestur.
  4. Höfundur skal segja sannleikann… hvað sem það kostar. Ekkert skal hindra hann í því. (Þessi liður er loðinn. Kannski er betra að segja að höfundur eigi að vera hreinskilinn, segi það sem hann meinar… umm veit það ekki.)

Svona gæti ég haldið áfram en þetta er það sem fyrst kemur í hugann. Ég hef hina stórkostlegu bók Kazuo Ishiguro, The Buried Giant, í hendinni þegar ég skrifa þetta og þetta eru atriði sem koma til mín þegar ég hugsa til þeirrar sögu.

Ég var varla stiginn út úr bílnum í gær eftir keyrsluna frá Fiatone í Toscana héraði þegar síminn minn hringdi. Ég þekkti ekki númerið svo ég lét símann bara hringja út. Skömmu síðar barst SMS frá Jóni Halli Stefánssyni sem sagðist hafa fengið nýtt símanúmer og hann hefði reynt að hringja. Það gladdi mig að fá símahringingu frá þeim ágæta heiðursmanni.

Hér í Chamonix verðum við fram á næsta laugardag og þar með endar sumarfríið. Chamonix bærinn er þekktur skíðabær, en hér er líka líflegt á sumrin. Hingað þyrpast fjallgöngukappar, og göngufólk eða útivistarfólk í stórum stíl. Það er eins og þeir sem maður mætir á götu úti gangi allir útbúnir reipi og ísöxi. Að minnsta kosti klæðist fólk hér hinum svokölluðu gönguskóm; þykkbotna leðurskóm sem eru þægilegir þegar gengið er á ójöfnum vegi.

IMG_8213
Yfir ánni sem rennur í gegnum Chamonix er fínofin þokuslæða.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.