Chamonix. Gattuso og brjálaður hundur

Hver man ekki eftir ítalska miðjumanninum, hinum vinnusama og skapbráða Gennaro Gattuso eða Rino eins og hann var kallaður? Hann var í mörg ár akkerið á miðju AC Milan liðsins, afar vinsæll leikmaður meðal áhangenda fyrir sigurvilja, baráttuþrek og skemmtilegheit. Nú höfum við tekið að okkur kött, og hann hefur fengið nafnið Gattuso í höfuðið á knattspyrnumanninum litríka. Þann fyrsta september flyst Gattuso kettlingurinn inn á Söbækvej.

Í morgun hljóp ég af stað eins og venjulega út í skóginn. Ég hafði ákveðið að hlaupa 5 km. Enn er skógarstígurinn eitt moldarsvað eftir rigningarnar undanfarna daga. Ég hef alltaf verið hálfhræddur að mæta villtum hundum þegar ég hleyp úti í náttúrunni og er því á varðbergi. Þegar ég hljóp upp og niður brekkurnar í Fiatone mætti ég tvisvar hundum sem geltu að mér. Mér er illa við þetta.

Í morgun þegar ég hljóp í skógargöngunum, aleinn með náttúrunni, sá ég allt í einu stóran hund birtast út úr skóginum framundan. Þetta var stór, svartur og brúnn Schefferhundur með síðan pels. Hann virtist vera einn á ferð en stefndi upp í fjallshlíðina á meðan ég hljóp meðfram fjallsrótunum. Þegar hundurinn varð mín var breytti hann snarlega stefnu og hljóp á harðaspretti í áttina til mín. Ég fann hvernig óttinn streymdi út í líkamann og hálflamaði mig. Hvað á maður að gera þegar 50 kg Schefferhundur hleypur á fullri ferð á móti manni?  Eitt vissi ég; að það þýddi ekki að reyna að hlaupa burtu frá skepnunni, maður á ekki sjéns. Þótt ég væri dauðhræddur hélt ég áfram á jöfnum hraða á móti hundinum en hafði ekki augun af dýrinu. Skyndilega birtist eldri maður þaðan sem hundurinn hafði komið og byrjaði að kalla á óargadýrið eins og óður. Það var eins og Schefferinn hefði bara eitt í huga: að ráðast á mig.

Óp og köll eigandans höfðu engin áhrif. Hundurinn var aðeins tæpa þrjá metra frá mér þegar hann tók undir sig stökk. Ég horfði í augun á hundinum þegar hann sveif í loftinu í áttina til mín og á sama tíma kom auga á að utan um hundskjaftinn var bundið brúnt band, augljóslega til að koma í veg fyrir að hann biti eða gelti. Ég reyndi að víkja mér undan en var of seinn þannig að hundflykkið skall inn í síðuna á mér og um leið  tókst mér að banda honum frá mér þannig að hann hálfdatt og halda hlaupinu áfram. Ég varð aðeins rólegri við að sjá þetta band um kjaftinn á dýrinu. En Schefferinn var ekki að baki dottinn. Hann stökk á mig aftanfrá og ég fann hvernig trýnið á honum small á aftanverðan hálsinn á mér. Nú tók ég sprett í átt til eigandans sem kallaði hástöfum á þennan brjálaða hund. Ég náði til eigandans sem náði að grípa um hálsól hundins um leið og hann reyndi í þriðja sinn að stökkva á mig.

„Excusez moi,“ sagði maðurinn örvinglaður.
Ég svaraði engu, hristi bara hausinn og hélt hlaupum mínum áfram.

Ég held að ég breyti aðeins hlaupahringnum á miðvikudag þegar ég hleyp næst þar sem ég er ekki í stuði að mæta öðrum brjáluðum hundi alveg strax.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.