Þriðjudagur. Ský yfir Chamonix. Í dag var ekkert hlaup á dagskrá, þess í stað spilaði ég tennis með Sus og Núma. Þau eru hæg framfaraskref mín í tennisíþróttinni. Uppgjafirnar batna og grunnspilið batnar en þær eru ekki sérlega greinilegar framfarirnar.
Í dag koma til okkar gestir sem verða hér til loka vikunnar. Adam vinur Núma og foreldrar hans Anne Line og Mads. Fyrirmyndir fólk.
Um miðjan ágúst hefst hin árlega bókmenntahátíð í Louisiana safninu í Danmörku. Hátíðin er orðin ein sú vinsælasta í heiminum. Rithöfundar um allan heim sækjast eftir að koma og lesa á þessari hátíð enda er allt skipulag og aðbúnaður til fyrirmyndar. Við The Ferdinands höfum margoft haft gesti á hátíðinni, það er að segja rithöfunda. Í ár kemur einn af höfundum forlagsins til hátíðarinnar, bandaríski rithöfundurinn Nell Zink. Að vera á bókmenntahátíð er góð skemmtun og oft nær hátíðin hápunkti sínum í kveðjuveislunni sem haldin er síðasta daginn, sem sagt á laugardeginum. Þetta eru hinar glæsilegustu veislur með margrétta máltíð og endar veislan oft í að rithöfundar og forleggjarar og aðrir aðstandendur hátíðarinnar sleppa fram af sér beislinu á dansgólfinu sem sett er upp eftir að allir hafa etið og drukkið.
Í ár barst Hr. Ferdinand bara einn boðsmiði til veislunnar þar sem einungis Sus var boðið. Hingað til höfum við bæði verið boðin. En þar sem veislan er æði vinsæl og rýmið til veislunnar er ekki ótakmarkað verða skipuleggjendur að vanda mjög hverjum þeir velja að bjóða. Hjá okkur hefur Sus verið sú sem hefur séð um samskipti við hátíðina, enda öllum hnútum kunnug varðandi slíkar samkomur eftir ár sín hjá Bókmenntahátíðinni í Reykjavík. Því liggur það beint við að hún sé boðin en ekki ég. Samt sem áður varð ég aðeins svekktur yfir að hafa ekki verið boðinn. Svona er maður hégómlegur.
