8:02 og tölvan orðin heit af spenningi. Ég hóf morguninn hér á skrifstofunni á að hella upp á fínt kaffi á meðan minn góði iMac kom sér í gang, rámur eftir svefn næturinnar. Enn gerði ég undantekningu á reglunni að ég megi ekki gera neitt annað áður en að skrifa hér á Kaktusinn. Ég fékk nefnilega brýnt verkefni frá bróður mínum í gær, rétt áður en ég fór heim. Bróðir minn ætti það sannarlega inni hjá mér að ég leysti þetta verkefni fljótt og vel, hugsaði ég á leið til vinnu, andstuttur og á fullri ferð á hjólinu mínu. Það tók mig ekki nema nákvæmlega 14 mínútur; verkefnið leyst.
Ég svaf ekki vel í nótt, vaknaði klukkan að verða fjögur og sofnaði ekki aftur. Ég hef of mikið að gera, það er svakaleg pressa á mér. Og ekki bætti úr skák að ég fékk vond tíðindi frá Íslandi í gærkvöldi, svo vond að ég var öskureiður inni í mér. Ég finn að ég er varnarlaus hér í Danmörku, ég get ekki beitt mér í þessu máli á Íslandi.
Í vor fékk ég boð frá manni sem býr hér í Espergærde til einhvers konar leika sem verða haldnir á og við heimili hans á laugardag. Hann hefur áður boðið mér og ég hef afþakkað. Þegar hann sendi nýtt boð fannst mér ég ekki geta verið svona ósósíal að afþakka enn og aftur. Maðurinn leggur sig fram um að bjóða mér með vinum sínum til skemmtunar, það væri nú meira vanþakklætið af segja nei takk. Satt að segja veit ég ekki hvað þessir leikar ganga út á, hef ekki gefið mér tíma til að setja mig inn í það. Ég hef móttekið upplýsingar um að ég eigi að borga 125 DKK og að veitt verða 2000 DKK verðlaun til sigurvegara að leikum loknum. En í hverju á að keppa, um það hef ég ekki hugmynd. Í morgun þegar ég klæddi mig í mína fínu töffaraskó spekúleraði ég (og það er ekki í mínum karakter að spekúlera á þennan hátt) í hvers konar skóm ég ætti að klæðast til leikana. Ætti ég að mæta í mínum brúnu leðurtöffaraskóm eða væri meira við hæfi að ég mætti í íþróttaskóm, kannski NIKE? En eitt er víst: nú er í ég engu stuði til að taka þátt í þessari helgarskemmtun.