“Var að lesa bloggið þitt, tvær vikur aftur í tímann. Þú ert kominn í tilfinningasamband við Ísland aftur. Veit ekki hvort það sé gott eða slæmt.” Þetta skrifar góður vinur minn til mín í gær. Hmmm, hugsaði ég. Er ég í tilfinningasambandi við Ísland? Kannski. Undanfarna daga hefur nefnilega rignt yfir mig tölvupóstum frá íslenskum vinum, kunningjum og meira að segja fólki sem ég þekki nánast ekki. Fólk sem hefur lesið bloggið og þá sérstaklega blogg þar sem ég skrifa um hinn íslenska bókamarkað. Þetta hefur áhrif á hugsanirnar.
Ég trúi ekki á plott. Ég trúi ekki að plottarar geti stýrt neinu að eigin vild. Ég held að manneskjan sé allt of óútreiknanleg til að hægt sé að kalla fram fyrirframskipulögð viðbrögð með einhverju plotti. Ég var nefnilega spurður hver mín leynilega áætlun var með skrifum mínum. Eins og ég hefði annað hvort djöfulleg eða himnesk markmið með að dunda mér við að halda dagbók. Ég hef hvorugt. Ég er maður í útlöndum sem æfir sig í að skrifa íslensku. Ég var orðinn of ryðgaður og er enn.
Ég sé það nú að sennilega hefði ég ekki átt að viðra hugsanir mínar um íslenska bókaútgáfu. Þessi skrif hafa valdið mér og öðrum of miklu ónæði. Ég er fyrir löngu búinn að yfirgefa íslenskan bókamarkað, hugurinn leitar næstum aldrei þangað. Ég stóðst bara ekki mátið þar sem persónur og leikendur á þessu litla sviði íslenskrar bókaútgáfu voru svo ákafir að flytja sinn litla mónólóg fyrir mig fyrr í sumar, þótt ég væri ekki einu sinni gestur í salnum.
Ég sný ekki aftur í stól útgefanda á Íslandi, þegar maður hefur einu sinni staðið á fætur og lokað á eftir sér kemur maður ekki aftur. Að sýsla með bækur er góð skemmtun og ég mun halda áfram að fylgjast með úr mismikilli fjarlægð. Sjónaukinn er í gluggasyllunni og ég get borið hann fyrir augun ef mér einhvern tíma skyldi leiðist.
Ekki heyrist mér að Jóhann Páll ætli að sitja mikið lengur í sínu hásæti á Forlaginu. Bæði Skorradalur og Maldíveyjar draga hann sterkar til sín en hornskrifstofan á Bræðraborgarstíg. Ekki er gott að vita hvað gerist þegar hann hengir útgefendabúninginn á herðatré og setur útgáfuskónna á hilluna. Það á að minnsta kosti eftir að setja einhverja litla hringrás í gang. Sumir geta reynt að plotta en menn ráða sér sjálfir og engir aðrir.