Espergærde. Hesta-derby 2016

Ég veit ekki hvað ég er á leið út í. Mér er boðið til samkeppni/samkomu nú klukkan tvö, eftir hálftíma. Ég skil ekki í hverju ég á að keppa, ég vona bara að ég eigi ekki að sitja á hestbaki, því það er mér ómögulegt. En samkoman heitir Derby 2016 og svo talar skipuleggjandinn eitthvað um hesta.

Ef ég skrifa ekki á morgun hefur eitthvað komið fyrir mig og ég vona að skátarnir í Danmörku séu jafnduglegir og á Íslandi. Einhver þarf kannski að bjarga mér. En ég stefni á verðlaun: 2000 DKK. Sus, Núm og Daf segja að þau reikni með að ég komi 2000 krónum ríkari.

Myndin að ofan er af póstmanninum mínum. Hann er alltaf einn. Hann á sumarfrí í næstu viku, heilar þrjár vikur og það finnst honum ekki gaman því hann hefur engan til að leika við, engan til að gera neitt með honum. Hann á vegabréf en hefur ekki endurnýjað það frá því það rann út fyrir fimm árum. Honum þykir harðfiskur góður. Ég gef honum stundum harðfiskpakka og þá maular hann fiskinn á meðan hann sér kvikmynd. Það er hans helsta skemmtun, að sjá kvikmyndir. Og ef hann getur tuggið harðfisk á meðan er hann glaður.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.