Espergærde. Hinir gulu verðir

“Hó, hvað er í pokanum?”
“Það er bara drasl sem á að brenna,” segi ég.
“Ég sé ekki betur en þetta sé garðúrgangur.”
“Ja… þetta getur brunnið. Það stendur á gámnum að hér eigi maður að henda drasli sem getur brunnið.” Ég veit að ég næ ekki langt með þessum rökum.
“Þetta er garðúrgangur og hann á ekki að brenna. Veistu hvað kostar að brenna þetta?”
“Nei… ekki alveg.”
“Hvaðan ertu?”
“Hvaðan er ég?”
“Já, hvaðan ertu? Þú ert ekki danskur.”
“Nei, ég er ekki danskur … Ég kem frá Íslandi.”
“Íslandi!! He!! Íslandi, já, þið hafið ekki hundsvit á ökonomi. Það er allt í klessu í því landi. Allt á hausnum. Þið vitið ekki hvað hlutirnir kosta. Þið eyðið bara. Það kostar tuttugu sinnum meira að brenna garðúrgang en að breyta honum í mold. Þú átt að setja garðúrgang þar sem garðúrgangur á að vera, ekki hingað í gáminn. Taktu þetta upp úr gámnum og settu á sinn stað… Íslendingur!” Það er hvít froða í munnvikum mannsins. Hann horfir á mig með viðbjóði. Annar  gulkæddur maður, með háls á við tvöhundruð ára gamalt eikartré, kemur gangandi. Hann finnur hinn sæta ilm vandræða og er fljótur að þefa hann uppi.  Hann stillir sér ógnandi bakvið mig.

Þetta var meðferðin sem ég fékk í Skibstrup, SOPRPU þeirra Dana, í gærmorgun þegar ég var að henda drasli úr skúrnum, og einhverju smáræði úr garðinum. Þó að starfsmenn hinnar dönsku SORPU séu ekki vopnaðir byssum eða bareflum eru þeir lífshættulegir. Á gámaplaninu, sem er á stærð við fótboltavöll, ganga 10 gulkæddir verðir og passa upp á að maður setji ekki rusl í rangan gám. Þeim er flokkun ekki bara nauðsynleg, flokkunin er þeirra trúarbrögð. Þetta eru heittrúaðir flokkarar. Engin frávik eru leyfð. Allt skal flokkst; járn (fjórir flokkar), keramik (átta flokkar), rafeindatæki, plast (fjórir flokkar), múr (þrír flokkar), tré (þrír flokkar),  pappi, pappír (tveir flokkar)… og til brennslu (minn uppáhaldsgámur).

Um leið og bíllinn stöðvast læðst hinir gulkæddu aftan að manni og þefa upp úr pokum. Og Guð hjálpi þeim sem setja drasl á rangan stað. Þeim er umsvifalaust refsað, oftast með  úthugsuðum niðurlægingaraðferðum; þessir menn hafa nefnilega gert niðurlægingarvopnið að sinni listgrein. “Klifraðu upp í gáminn og tíndu þetta aftur upp, þetta á ekki að vera hér,” segja þeir óhikað við eldri, kurteisa herramenn í blankskóm, sem, þrátt fyrir mótbárur, eru oftar en ekki þvingaðir til að klifra niður í ruslagáma og róta í drasli til að tína rangt flokkaðan úrgang upp eftir sig og setja á sinn stað.

Að þurfa að fara til Skibstrub er eitt af því versta sem ég veit. Mín bíður þar alltaf eitthvert form refsingar, sama hvað ég vanda mig. Maður keyrir inn á þetta gámaplan með hjartslátt og þurran munn. Hinir gulklæddu standa með hendur fyrir aftan bak og kíkja inn í bílinn til að skoða fórnarlambið sem kemur keyrandi inn með hjartað í hálsinum.

Annars var dagurinn í gær góður. Ég spilaði fótbolta með félögum mínum í fótboltaliðinu í Espergærde, fyrsti leikur keppnistímabilsins á móti Helsingør. Leikurinn endaði 2-2. Fitubollunni í marki Helsingør tókst einhvern veginn alltaf að vera fyrir boltanum. Þrátt fyrir fjörutíu skot á mark tókst okkur bara að skora tvö mörk.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.