Espergærde. Á veiðum

Ég bý í litlum bæ, Espergærde, rétt norður af Kaupmannahöfn. Hér eru skráðir um það bil 10.000 íbúar. Flestir sem búa í Espergærde vinna inni í höfuðstaðnum Kaupmannahöfn. Á daginn er því ekki sérlega líflegt í bænum. Fáir eru á ferli. Ég kann samt vel við mig hér. Sem betur fer er góður veitingastaður í bænum; hinn ítalski Il Divino sem liggur niður á Strandvejen. Lítill, notalegur veitingastaður með ítölsku starfsfólki sem talar mislitla dönsku. Eigandinn er mikill jazzáhugamaður og í hverri viku koma stór dönsk jazznöfn og spila fyrir gesti. Það er líka mjög heppilegt að hér er  verslunarmiðstöð þar sem bæði er hægt að kaupa í matinn, kaupa föt, þar er bókabúð (ekki sérlega góð), sportvöruverslun, gjafaverslun, skósmiður, úrsmiður … Ég vona að búðirnar lifi af netverslunarvæðinguna.

Í gærkvöldi gengum við Davíð af stað á Pokemonveiðar. Davíð er áhugasamur um Pokemon og hann vill endilega fá mig eða mömmu sína með sér út að ganga á kvöldin. (Einn fítusinn í spilinu er nefnilega að maður þarf að ganga 10 km til að unga út Pokemon-eggjum). Við örkuðum sem sagt af stað saman í dönsku kvöldlogni. Faðir og sonur á veiðum. Á ströndinni, sem liggur rétt neðan við húsið okkar, höfðu unglingar bæjarins safnast saman.
“Hó, Zlatan, fanger du Pokemons?” var hrópað til okkar.

Við Davíð gengum áfram framhjá Il Divino. Þar var nóg að gera. Gestir sátu úti á stétt og drukku kaffi, bjór eða rauðvín og fylgdust með umferðinni á Strandvejen. Við Davíð stoppuðum ekki á veitingastaðnum heldur héldum rakleiðist til kirkjunnar og kirkjugarðsins, sem líka liggur niður að Strandvejen. Þar er svokallað Poke-stop. Maður staldrar við á Poke-stoppi til að birgja sig upp af boltum til að veiða Pokemons.  Kirkjugarðurinn, sem liggur bak við háan steinvegg, er ansi fallegur eins og kirkjugarðar oft eru. Allt er í blóma, grasið slegið og runnar klipptir. Legsteinarnir eru sumir gamlir, lúnir og skakkir, aðrir eru nýlegir og í þá eru greyptir snyrtilegir gullstafir. Á legsteinunum eru öll þessi dönsku nöfn sem ég þekkti ekki og ég hugsaði með mér: Skyldi ég verða grafinn hér? Foreldrar mínar liggja í kirkjugarðinum í Odda, hlið við hlið, það vildu þau bæði.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.