Espergærde. Samtöl um kynlíf og minnisbók

Í dag á ég von á gesti; amerískum rithöfundi sem býr í Berlín en kemur hingað til að lesa og skrafa við lesendur á bókmenntahátíðinni í Louisiana. Hún heitir Nell Zink og á kannski fyrst og fremst frægð sína að þakka að Jonathan Franzen lagði persónulegan metnað sinn í að Zink fengi sína fyrstu bók útgefna, þá var hún orðin 50 ára gömul. „Hún er óvenjulega hæfileikaríkur höfundur. Bækur hennar kalla fram þá hugsun að kannski sé heimurinn bæði stærri og skrítnari en sá heimur sem við þekkjum,“ sagði Franzen um Nell Zink.

Klukkan eitt keyri ég til Kastrup og sæki höfundinn. Í morgun hef ég skoðað myndir af henni svo ég geti þekkt hana þegar hún birtist í tollútganginum í Kastrup. Ég hef hugsað um hvað ég eigi að tala við hana. Hún hefur unnið fyrir sér sem múrari og það er kannski umræðuefni en svo hugsa ég: Hvað er aftur múrari á ensku. Á ítölsku þekki ég orðið muratore. En ensku… jú, mason, eins og Nick Mason, trommarinn í Pink Floyd.

Bókmenntahátíðin hefur líka beðið mig að taka annan höfund með. Hann lendir 30 mínútum seinna. Sá heitir Chigozie Obioma. Ég hef líka skoðað myndir af honum. Hann er glaðlegur náungi, svartur, enda frá Nígeríu. Við Nell eigum því eftir að sitja saman á bekk í Kastrup og bíða eftir Chigozie og kannski spjalla um múrverk. Örugglega ekki um Jonathan Franzen, hún er sennilega búin að fá nóg af því að tala um hvernig Jonathan hjálpaði henni upp á rithöfundafæturna.

Ég óttast að það sé erfitt að tala við Zink. Þegar ég horfi á myndir af henni fæ ég á tilfinninguna að hún nenni ekki að spjalla um daginn og veginn. Hún vill tala um flókna og skrítna hluti. Hún vill tala um kynlíf eða ísraelska skáldið Avner Shats. Ég get örugglega ekki borið undir hana vandræði mín með uppgjafir í tennis eða hvað ég sé taugaóstyrkur áður en ég spila kappleiki í fótbolta. Ég las grein eftir höfundinn þar sem hún leggur til að ólympíuleikarnir verði lagðir niður í núverandi mynd. Henni finnst alltof mikið púður fara í að byggja upp nýja leikvanga á fjögurra ára fresti. Því leggur hún til að ólympíuleikarnir snúist um íþróttir þar sem keppendur geti setið heima en keppt með hjálp tækninnar. Til dæmis, segir hún, væri bréfskák óvitlaus keppnisgrein.

Ég gæti líka spjallað við Zink um að ég sé búinn að týna minnisbókinni minni. Kannski hefur hún líka einhvern tíma týnt minnisbók og þá getum við skipst á reynslusögum um minnisbækur og leit að þeim. Ég nota mína litlu, bleiku skrifblokk oft og mikið. Skrifa setningar út í loftið sem eiga að minna mig á eitthvað síðar, ég reikna, set niður minnispunkta um verkefni og annað sem kemur til góða þegar heilinn er lekur. En ég bara finn ekki bókina. Einu sinni fékk ég símtal frá einhverjum náunga sem hafði fundið bleika minnisbók, sem hefði getað verið mín. En minnsbókin mín lá þá, undir símtalinu, fyrir framan nefið á mér. Það væri ekki ónýtt ef gaurinn hringdi aftur og nú með minnisbókina fyrir framan sitt nef.

Ég birti mynd af bókinni hér fyrir neðan ef einhver skyldi hafa rekist á hana.

IMG_7359
Bleika minnisbókin mín

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.