Espergærde. Hálfkæringur höfunda

Eftir fundinn með Mofibo í gær, sem gekk að óskum,  flýtti ég mér til baka og út til Louisiana til að sjá samtal Karl Ove Knausgårds og Christians Lund. Ég hef lengi fylgst með höfundinum og ég hlakkaði til að heyra hann tala um verk sín. Ég segi það strax. Fátt finnst mér leiðinlegra en viðtöl við höfunda sem eru illa undirbúnir og halda að þeir geti pískað upp stemmningu með einhverjum hálfkæringi í svörum sínum. Karl Ove var ekki þannig. Hann er alvarlegur maður og fjallaði af mikilli einlægni um verk sín. Talaði eins og hann hefði mikilvæg skilaboð fram að færa, eins og honum lægi mikið á hjarta. Slík viðtöl geta orðið góð. En ég lét samt ekki alveg heillast því Karl Ove talaði norsku og ég átti stundum erfitt með að skilja hvað hann sagði.

Ég sat heldur ekki vel. Áheyrendafjöldinn var ógurlegur, örugglega 1000 manns og ég komast ekki eins nálægt og ég hefði óskað; ég sá til dæmis ekki andlit höfunarins, bara hnakka og það var enn erfiðara skilja framandi tungumál ef maður sér hvorki sviðbrigði eða munnhreyfingar. Mér fannst gaman að fylgjast með höndum skáldsins sem hann notar óspart til að tjá sig. Hann hefur svo stórar hendur hann Karl Ove.

Þegar norska skáldið hafði lokið máli sínu við mikinn fögnuð áheyrenda kom höfundurinn minn á sviðið, Nell Zink, og það voru margir komnir til að hlusta á hana. Viðmælandi hennar var blaðamaður  og bókmenntagagnrýnandi frá Politiken. Samtal þeirra var vægast sagt hörmulegt. Nell var sannfærð um að kæruleysislegar yfirlýsingar og smásjálfsháð væri hin greiða leið að hjarta viðstaddra. Hún hafði rangt fyrir sér. Niðurstaðan var ruglingslegt samtal tveggja kvenna sem hvor var á sinni bylgjulengd og hvorug hafði þolinmæði til að láta hina klára mál sitt áður en þær byrjuðu að gaspra.

Ángæjulegri tíðindi. Við sóttum kettlinginn Gattuso til eigendana sinna sem búa í Grestad, langt inni í Sjálandi. Nú er hann 11 vikna og klár til að standa á eigin fótum og því flytur hann til okkar. Það er augljóst að við höfum fengið stríðskött. Sá á eftir að stjórna kattalífinu hér á Søbækvej.

IMG_8306
Áheyrendur til Karl Ove Knausgaard.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.