Espergærde. Bruggararnir

Ég trúi á hina hrasandi manneskju. Það segi ég hátt og í hljóði. Ég trúi á hina hrasandi manneskju. Kannski hugsa ég þetta því mér finnst ég síhrasandi.

Í gærkvöldi lá ég uppí sófa og las langt viðtal í JyllandsPosten við Jeppe Jarnit-Bjergsø á meðan stríðskötturinn minn, Gattuso, reyndi ítrekað að ná dagblaðinu af mér. Jeppe er einn frægasti bjórbruggari heims. Hann og tvíburabróðir hans, Mikkel, eru þeir tveir sem þykja skara framúr þegar talað er um „microbruggara“. Þeir eru ekki bara frægir fyrir að brugga góðan bjór og opna töffaralega bari í New York og Kaupmannahöfn heldur er frægð þeirra líka tilkomin vegna þess að þessir tveir menn, tvíburar og bruggarar í heimsklassa, eru svarnir óvinir.

Viðtalið var sem sagt við annan tvíburann, þann sem rekur Evil Twin Brewery. Hinn tvíburinn bruggar Mikkeler bjór. Viðtalið var langt, heilar 10 dagblaðsíður og fáar myndir. Ekki náði Jeppe Jarnit að heilla mig. Var meðal annars fjallað um deilur þeirra bræðra sem höfðu alla tíð verið óaðskiljanlegir vinir. Af viðtalinu að dæma er ástæða ósættis þeirra heldur óljóst, eitthvað með peninga eins og svo oft. En á einhvern hátt nærist hann, Jeppi þessi, á  deilunum. Mér fannst hann ósympatískur. Viðtalið var til þess að í gærkvöldi varð mér tíðhugsað um fyrirgefninguna. Ég ályktaði að geta sett sig í spor annarra og sterkt ímyndunarafl séu næringarefni hæfileikans til að fyrirgefa.

Það er þriðjudagsmorgunn. Ég er einn á skrifstofunni og hin argentínska söngkona Buika syngur fyrir mig. Fyrir utan gluggann minn standa þrír menn í logni á brautarpallinum. Þeir eru ekki á ferð saman.  Allir halla þeir sér örlítið fram til að athuga eitthvað á símunum sínum. Það hefur rignt í nótt.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.