Espergærde. Ekkert stefnuljós

Þegar ég sit í bíl vil ég helst sitja sjálfur undir stýri. Þannig er ég öruggastur. Ég á ekki við að aðrir séu lélegir ökumenn. Mér datt þetta bara í hug þegar staðfest var að Forlagið, bókaútgáfan, hefði fengið nýjan bílstjóra. Nýjan mann í ökusætið. Úa Matthíasdóttir tekur við stýrinu, Jóhann Páll sest tímabundið í framsætið þar til að honum verður að endingu skutlað í Skorradalinn.

Það tók Jóa kannski mörg ár að verða almennilegur bílstjóri, ungur átti hann það til að keyra alltof hratt og lenti því oft  á vitlausum vegarkanti eða hreinlega út af veginum. Ég held þó að enginn hafi slasast í þessum óhöppum, kannski Jói hafi fengið smásjokk þegar hann vaknaði útí móa og allt í klessu í kringum hann. En hann var fljótur að setjast aftur í ökusætið í öðru farartæki og bruna af stað. Ég man þegar erfðatæknifyrirtækið, Geneologia eða eitthvað á þá áttina, keypti nýjan glæsivagn handa honum. Þar var engu til sparað en ég held að Jói hafi ekki verið rétti maðurinn til að keyra svo stóran og flókinn vagn sem krafðist margra bílstjóra.

Þótt að Úa sé örugglega góður ökumaður er missir af hinum impulsíva ökumanni, Jóa, úr umferðinni. Ég hef alltaf kunnað að meta menn sem gefa ekki alltaf stefnuljós þegar þeir beygja.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.