Espergærde. Í brekkunni

Á hverjum morgni hjóla ég til vinnu. Það er ekki langur hjólatúr, hámark 7 mínútur ef ég hjóla rólega. Í morgun hjóluðum við Davíð samferða fyrsta spölinn, hann á leið í skóla og ég upp á lestarstöð þar sem skrifstofa Hr. Ferdinands er. Það var aldeilis fínt að hjóla í morgunsólinni og ekki bærðist hár á höfði.

Við skólann þekkir maður alltaf marga og maður þarf að vera harðákveðinn ef maður á ekki að lenda á eilífðarspjalli við foreldra sem hafa gengið með börnum sínum i skólann. Í dag stóðst ég ekki mátið þegar ég hjólaði Ole arkitekt uppi á leið upp einu brekkuna, ef brekku skyldi kalla, á leið minni upp á kontórinn.

“Hó,” segir Ole, “ertu búinn að heilsa upp á Guðmund Guðmundsson og óska honum til hamingju?” Guðmundur Guðmundsson er þjálfari danska landsliðsins í handbolta sem vann gullið á ólympíuleikunum í Ríó.
“Nei, ég þekki manninn ekki.”
“Ég hélt að allir Íslendingar þekktust. Ég var einu sinni að teikna hús, eða fjölbýlishús fyrir íslending, Sigurjón Sighvatsson, hann var eitthvað bigshot í Hollywood. Ég spurði hann um þig og hann sagðist þekkja þig og sagði að allir Íslendingar þekktust.”
Samtalið í hinni dönsku brekku tók 30 mínútur. Og þannig er það í þessum litla bæ hér á norður Sjálandi. Maður spjallar í brekkum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.